Pallurinn allur!

Það hafði lengið verið draumur okkar hjóna að opna einhvern lítinn og skemmtilegan rekstur norður í landi.

Pallurinn allur!
Aðsent efni - - Lestrar 7239

Þóra Sigurðardóttir og Völundur Snær Völundarson.
Þóra Sigurðardóttir og Völundur Snær Völundarson.

Það hafði lengið verið draumur okkar hjóna að opna einhvern lítinn og skemmtilegan rekstur norður í landi.

Völli á rætur sínar að rekja þangað og heimabyggðin kallaði. Við vorum búin að svipast um lengi eftir henntugu tækifæri þegar leiðir okkar og Stefáns Guðmundssonar, hjá Gentle Giants, lágu saman fyrir tilviljun sem endaði með því að hann bauð okkur að leigja hjá sér skúrana tvo sem standa á þaki björgunarsveitarhússins. Okkur leist nokkuð vel á þetta enda með afbrigðum áhættusækin og til í flest ef það er nógu óvenjulegt og heillandi. Með þessu hugarfari fórum við af stað. Við urðum okkur út um stórt logsuðutjald sem við létum sauma í glugga svo að Skjálfandi sæist vel og síðan voru skúrarnir teknir algjörlega í gegn og í þeim smíðað fullbúið eldhús sem alla jafna gengur undir nafninu kafbáturinn. Við vissum svo sem ekki á hverju við áttum von þegar við opnuðum þann 2. júní 2011 í þó nokkrum kulda og hryssingslegu veðri. Uppgjörið fyrsta daginn var ekki upp á marga fiska og það runnu á okkur tvær grímur. Þeim grímum fjölgaði þegar við áttuðum okkur á því að allar okkar rekstraráætlanir áttu við engin rök að styðjast. Við höfðum að sjálfsögðu reiknað með hógværri prósentu af þeim tugþúsundum ferðamanna sem okkur hafði verið sagt að þræddu stræti Húsavíkur á sumrin en það tók okkkur ekki langan tíma að átta okkur á því að Húsavíkurtúristarnir voru í reynd bara bryggjutúristar sem komu á rútum, fóru út í skip, inn á Gamla bauk og svo upp í Mývatnssveit. Það var því heldur aumt á okkur upplitið í fyrstu eins og gefur að skilja.

En þá gerðist hið undursamlega. Hinn almenni Húsvíkingur og fólkið úr nærliggjandi sveitum fóru að venja komur sínar á Pallinn. Stemningin sem myndaðist var engu lík og oft hafði ég á orði að þetta væri eins og á góðu héraðsmóti. Allir þekktu alla og gleðin var mikil. Fastagestunum fjölgaði, fólk leyfði sér oftar að fara út að borða og heilu fjölskyldurnar mættu til að gera sér glaðan dag. Jafnframt fóru innlendir ferðalangar að mæta í síauknum mæli á Pallinn enda var blíðviðrið með eindæmum á norðurlandinu þetta sumarið. Við héldum okkar striki, vorum með einfaldan og góðan mat og gættum þess að hafa verðið í hófi. Sumarið eftir vorum við svo mætt aftur, reynslunni ríkari og tilbúin í slaginn. Þá fór að bera á nýjum kúnnahópi í bland við heimamenn en það voru erlendir ferðamenn. Flestir voru þeir með hina geysivinsælu Lonely Planet bók og svo fór á endanum að við áttuðum okkur á því að Pallurinn var með topp einkun í bókinni og reyndar valinn sá staður sem ferðalangar yrðu að heimsækja á leið sinni um norðurlandið. Allt gerði þetta að verkum að sumarið var hið fjörlegasta og sitja eftir margar góðar minningar. Eitt af síðustu verkum sumarsins var að taka upp heilan sjónvarpsþátt helgaðan Pallinum með Völu nokkurri Matt sem dásamaði Húsavík og Pallinn sem mest hún mátti.

Nú blasir hins vegar við að saga Pallsins er öll og ekki virðist frá því hvikað. Ástæðan er sögð ófrávíkjanlegt deiliskipulag - svo háheilagt að ekki er til umræðu að breyta því. Menn bera fyrir sig stöðuleyfi og þá ósanngirni gagnvart öðrum veitingamönnum að við greiðum ekki fasteignagjöld af skúrunum. Fasteignagjöld eru eins og allir vita bara dropi í hafið miðað við allt hitt sem skilar sér til samfélagsins. Auk þess greiðum við leigu enda ekki sjálfgefið að eiga húsnæðið sem reksturinn er í. Engu máli virðist skipta því sem Pallurinn skilar samfélaginu, þau störf sem hann veitir, þá veltu sem af honum skapast eða nokkuð annað.

Tók hæstvirtur Byggingar- og skipulagstjóri, Gaukur Hjartarson, meira að segja svo til orða að það væri til nóg af veitingastöðum sem að viðskiptavinir Pallsins gætu leitað til. Þar er sterkt til orða tekið og sjálfsagt satt - en er það endilega samfélaginu til bóta að draga úr samkeppni og fjölbreyttni. Ég stóð í þeirri meiningu að Pallurinn hefði skapað sér ákveðna sérstöðu og væri skemmtileg viðbót við mannlífið en því virðast skipulagsforkólfar bæjarins ekki sammála.

Mig langar að gefnu tilefni að leiðrétta ákveðinn misskilning sem virðist hafa gætt í þessu máli. Í fyrsta lagi er fyrir löngu búið að sækja um framlengingu stöðuleyfis fyrir Pallinn. Því hefur verið hafnað. Aðrir veitingastaðir eru með sambærileg stöðuleyfi. Þeir standa enn. Engin rök hafa verið færð fyrir því að leyfinu hafi verið hafnað. Bara vísað í deiliskipulag. Pallurinn hefur ekki verið á undanþágu yfirvalda heldur uppfyllir hann að öllu leyti þau skilyrði sem gerð eru til veitingareksturs. Pallurinn veitir tíu manns vinnu - það virðist engu máli skipta. Ekkert annað á að rísa þar sem Pallurinn stendur nú. Hann er ekki fyrir neinu. Þarna verður bara auður pallur að öllu óbreyttu.

Það er því með miklum trega að þessi orð eru skrifuð og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana að Pallurinn sé allur. Ég skora því á skipulags- og bæjaryfirvöld að heimila okkur að starfa áfram. Það getur ekki verið svo flókið...

Völundur Snær Völundarson og Þóra Sigurðardóttir.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744