09. júl
Nýtt línuskip GPG kom til Húsavíkur í dagAlmennt - - Lestrar 564
Línuskipið Hörður Björnsson ÞH 260 sem GPG Seafood keypti í vor kom til hafnar á Húsavík í dag eftir skveringu í Slippnum á Akureyri.
Heimahöfn skipsins er Raufarhöfn en GPG Seafood rekur fiskvinnslur á Raufarhöfn og Húsavík.
Fyrir á GPG Seafood Jökul ÞH 259 og krókaaflamarksbátana Háey II ÞH 275 og Lágey ÞH 265. Bjargey ÞH 278, sem einnig er í krókakerfinu, gekk upp í kaupin á Herði Björnssyni sem áður hét Gullhólmi SH 201 og var í eigu Agustson ehf. í Stykkishólmi.
Að sögn Gunnlaugs Karls Hreinssonar framkvæmdastjóra GPG Seafood er markmiðið með kaupunum m.a að tryggja þessum öflugu fiskvinnslum stöðugra hráefni en fæst með minni bátum.
Hörður Björnsson mun halda til línuveiða síðari hluta ágústmánaðar en hann er með 45.000 króka beitningavél um borð. 14 manna áhöfn verður um borð og skipstjóri Hjalti Hálfdánarson.
Hjalti fer fyrst með Jökul ÞH á makrílveiðar og að þeim loknum fer báturinn í slipp en Gunnlaugur Karl reiknarmeð því að gera hann út á ufsa- og þorskanet.
Skipið er nefnt eftir Herði Björnssyni frá Dalvík sem var skipstjóri á skipinu í 32 ár er það hét Þórður Jónasson EA. Skipið, sem er smíðað 1964, er 49 metrar að lengd og 7.50 metrar á breidd. Það mælist 471 brúttótonn að stærð og á farsæla útgerðarsögu.
Gunnlaugur Karl Hreinsson framkvæmdarstjóri og eigandi GPG Seafood um borð í nýja skipinu sem alla tíð hefur verið vel við haldið og er vel búið tækjum.
Kallinn í brúnni blómlegur að sjá.
Með því að smella á myndirnar má fletta þeim og skoða í stærri upplausn.