Nýjum íbúðum fagnaðAlmennt - - Lestrar 92
Í upphafi vikunnar var því fagnað að nýtt og glæsilegt raðhús sem Bjarg íbúðafélag lét reisa að Lyngholti 42-52 á Húsavík væri tilbúið til leigu.
Fulltrúar frá Bjargi íbúðafélagi, SG Húsum á Selfossi, Norðurþingi og stéttarfélögunum komu saman og vígðu formlega nýju íbúðirnar.
Frá þessu segir á heimasíðu Framsýnar:
Eins og fram hefur komið er um að ræða nýsköpunarverkefni þar sem íbúðirnar voru smíðaðar á Selfossi og fluttar nánast fullbúnar norður. Á sama tíma og húsin voru í smíðum á Selfossi sáu heimamenn á Húsavík um jarðvinnu og sökkla fyrir húsið.
Aðalsteinn Árni startaði samkomunni og þakkaði öllum þeim sem komu að verkinu fyrir þeirra framlag, sérstaklega Bjargi og Norðurþingi sem komu að því að láta verkið ganga upp.
Framkvæmdin hefði gengið afar vel og öllum til mikils sóma. Ef eitthvað væri, hefði húsið þurft að vera töluvert stærra. Það er með fleiri íbúðum þar sem 44 fjölskyldur sóttu um þessar sex íbúðir. Þörfin fyrir húsnæði sem þetta væri greinilega mikil.
Framsýn ætlaði sér að setja sig í samband við Norðurþing og Bjarg á næstu dögum varðandi frekari uppbyggingu á Húsavík. Því næst afhenti Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SG Húsa Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs lyklana að íbúðunum.
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings tók til máls og þakkaði samstarfsaðilum fyrir samstarfið og uppbygginguna á Húsavík.