Nýir aðilar taka við rekstri Dalakofans á LaugumAlmennt - - Lestrar 471
Dalakofinn á Laugum er vel þekktur og hlýlegur veitingastaður sem hefur í mörg ár verið í rekstri hjónanna Halla og Lillýar eins og allir þekkja þau á svæðinu og víðar.
Miðvikudaginn 1. mars, tóku nýir aðilar við keflinu, Ólafur Sólimann og Guðrún Boyd.
Ólafur, eða Óli eins og hann er alltaf kallaður, er kokkur og hefur unnið við vöruþróun matvæla í um áratug og í veitingahúsageiranum.
Hann hefur verið að byggja upp matvælavinnslufyrirtækið Úr héraði og Matarskemmuna á Laugum í samvinnu við sveitarfélagið Þingeyjarsveit og fleiri. Guðrún Boyd hefur unnið með honum í því verkefni og nú takast þau saman á við það verkefni að halda góðum merkjum Dalakofans á lofti.
Þau sjá mikla möguleika í rekstri Dalakofans og tækifæri í staðbundinni matvælavinnslu. Bæði Guðrún og Óli vilja sjá veg mætvæla úr héraði sem mestan og í matvælavinnslunni verða unnar vörur og hráefni sem nýtt verða í rétti í Dalakofanum.
Haldið verður í þann góða anda sem ríkt hefur í Dalakofanum og byggt á þeim góða grunni sem er þar til staðar þó vissulega muni einhverjar breytingar verða þegar fram í sækir.
Bæði Guðrún og Óli segja að á Laugum vilji þau helst vera og hlakka til að taka á móti gestum og gangandi í nýjum hlutverkum. Þau hvetja fólk til að fylgjast með á samfélagsmiðlum Dalakofans og lofa að halda áfram með girnileg hádegistilboð og vonandi bjóða upp á uppákomur þegar fram í sækir.
Guðrún Boyd, Halli Bó og Ólafur Sóliman við Dalakofann.
Ljósmynd SJÁ.