Lyftum þeim upp!Aðsent efni - - Lestrar 334
Í sumar hafa yngri flokkar kvenna í knattspyrnu staðið sig afar vel á þeim mótum sem stelpurnar okkar hafa tekið þátt í.
Þar má helst nefna að 5. flokkur kvenna varð Símamótsmeistari og 4. flokkur kvenna kom sömuleiðis heim með bikar af Reycup.
Það er mikilvægt fyrir þessar ungu stúlkur og allar hinar sem stunda knattspyrnu hjá Völsungi að eiga sér góðar fyrirmyndir í nærsamfélaginu í sinni íþrótt.
4. flokkur Völsungskvenna.
Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu varð deildarmeistari í 2. deild sumarið 2019, með glæsilegum árangri þar sem þær unnu 11 leiki og gerðu eitt jafntefli. Við öll sem sáum þær lyfta bikarnum á heimavellinum þegar titillinn var í höfn munum hversu frábær og mikilvæg stund það var. Fyrst og fremst fyrir þær sjálfar sem höfðu lagt ómælda vinnu og erfiði á sig til að komast á þann stað, en líka fyrir yngri iðkendur sem eignuðust virkilega góðar fyrirmyndir í sinni íþrótt í heimabænum og fyrir heimabæinn og íþróttalífið að hafa eitthvað til að sameinast um, efla félagsandann og eiga saman gleðistundir.
5. flokkur Völsungskvenna.
Stelpurnar okkar í meistaraflokki eru í toppbaráttunni í 2. deild og eiga góða möguleika á að endutaka leikinn. Að loknum níu leikjum eru þær taplausar, með sjö sigra og tvö jafntefli. Þær eru aftur að sýna að þær eru góðar fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar og þær eru aftur að gefa okkur, samfélaginu á Húsavík, tækifæri til að sameinast um eitthvað jákvætt og ánægjulegt.
Framundan er síðasti heimaleikurinn áður en 2. deild skiptist upp í efri og neðri hluta þar sem ræðst hver verður deildarmeistari og hverjir fara upp í 1. deild. Stelpurnar okkar eiga leik við ÍA á laugadaginn kl. 16. Enginn getur allt en öll getum við eitthvað. Stelpur úr 6.-8. flokki ætla að leiða liðin á völlinn á laugardaginn, stelpur úr 5.-7. flokki verða á boltasækjar og það má örugglega reikna með Jóni Hösk með bros á vör í sjoppunni og grillinu heitu.
Við ætlum ekki að missa af leiknum og hvetjum þig til að koma líka. Saman eflum kvennaknattspyrnu innan Völsungs, styðjum stelpurnar okkar og lyftum þeim aftur upp í 1. deild.
Arnór Aðalsteinn Ragnarsson og Helena Eydís Ingólfsdóttir,