Lionsmenn hætta með fermingarskeytin eftir 42 árAlmennt - - Lestrar 312
Árið 1975 fór Lionsklúbbur Húsavíkur að taka við og senda áfram fermingarskeyti á Húsavík og hefur gert það allar götur frá því ári, eða samfleytt í 42 ár.
En nú hefur klúbburinn ákveðið að hætta þessari þjónustu en frá þessu segir í síðasta tölublaði héraðsfréttablaðsins Skarps:
Allt fram á síðustu ár hefur þetta verið drjúg fjáröflun sem samfélagið, ekki síst Sjúkrahúsið, hefur notið góðs af, að sögn Tryggva Finnssonar hjá Lionssklúbbnum.
„Síðustu árin hefur hratt fækkað skeytum og peningakortum, auk þess sem fermingarbörnum hefur einnig fækkað. Og er nú svo komið að þetta er ekki fjáröflun lengur og hefur Lionsklúbburinn því ákveðið að hætta þessari þjónustu. Aðrar boðleiðir hafa tekið við, formleg skeyti eru ekki lengur send, samfélagsmiðlarnir eru að verða alls ráðandi,“ segir Tryggvi. Og bætir við:
„Fyrr á árum var meðal skeytafjöldi milli 10-15 skeyti á fermingarbarn en nú eru þau 3-4. Þá ríkti ættarsamfélag á Húsavík og flest fermingarbörn áttu ríkulegan frændgarð, auk þess sem ýmsir Húsvíkingar voru með stórt og mikið tengslanet og sendu mörg skeyti. Ég held þó að á engan sé hallað þó nefnt sé nafn Kristjáns Ásgeirssonar í því sambandi.“ Sagði Tryggvi.
Áður en Lionsmenn tóku við þessu verkefni, þá var þetta einkaframtak Sigurðar Péturs Björnssonar, Silla í bankanum, sem hann fór að stað með sem fjáröflun fyrir Sjúkrahúsið á Húsavík í kringum 1960. Silli sá sjálfur um að skrifa á skeytin með sinni fögru rithönd, sem má á skeytinu á myndinni.
„Silli fól síðan Lionsklúbbnum að halda þessu verkefni áfram sem okkur lionsfélögum þótti mikill heiður og viðurkenning. En nú er þessu skemmtilega verkefni væntanlega endanlega lokið hjá okkur,“ Sagði Tryggvi Finnsson. JS