Kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík fer vel af staðAlmennt - - Lestrar 85
Kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík er hálfnuð og hefur aldrei verið jafn stór og vegamikil og nú.
Hátíðin er haldin í fjórða sinn í ár og er skipulögð af Whale Wise í samstarfi við Hvalasafnið.
Frá þessu segir á heimasíðu Hvalasafnsins en fyrstu tveir dagarnir fóru fram í Hvalasafninu þar sem sjö kvikmyndir voru til sýningar.
Eva Björk Káradóttir framkvæmdastjór Hvalasafnsins skrifar:
Sú mynd sem er í uppáhaldi hjá mér eftir fyrstu tvo dagana er Ocean Seen from the Heart sem er heimildarmynd eftir Iolande Cadrin-Rossignol og Marie-Dominique Michaud. Myndin fjallar um ástand sjávarins og áhrif mannsins á líffræðilegan fjölbreytileika og hitastig hans. Hubert Reeves leiðir áhorfendur ásamt vísindamönnum og könnuðum og sýnir fram á endurhæfingarhæfni hafsins og mikilvægi þess að vernda það. Ocean Seen from the Heart, ásamt mörgum kvikmyndum sem eru á dagskrá hátíðarinnar, er aðgengileg á Vimeo-síðu Ocean Films Húsavík.
Næstu tvo daga heldur hátíðin áfram í Leikhúsi Húsavíkur og er aðgangur ókeypis. Gestum er frjálst að heimsækja hátíðina eins og þeim hentar. Þeir sem vilja styðja við hátíðina geta gert það með því að kaupa popp og gos í leikhús sjoppunni.