Jökull kominn á veiðar, landaði á Húsavík í dag

Á átttunda tímanum í morgun kom hið nýja línu- og netaskip GPG Seafood, Jökull ÞH 299, til löndunar á Húsavík.

Gunnlaugur Karl og Árninna Ósk við hið nýja skip.
Gunnlaugur Karl og Árninna Ósk við hið nýja skip.

Á átttunda tímanum í morgun kom hið nýja línu- og neta-skip GPG Seafood, Jökull ÞH 299, til löndunar á Húsavík.

Jökull, sem er á netum og lagði þau að þessu sinni í Breiðafirði, var í sinni fyrstu veiðiferð þar sem verið var að prufa skipið og útbúnað þess.

Að sögn Gunnlaugs Karls Hreinssonar stjórn­ar­formanns GPG gekk veiðiferðin vel og ágætur afli. Aðeins þarf þó að fínspússa nokkur atriði áður en haldið verður aftur til veiða í kvöld.

Jökull var smíðaður í Noregi árið 1996 og er 962 GT að stærð. Lengd hans er 44 metrar og breiddin 10 metrar.

Hann hét áður Nanoq og var gert út af Arctic Prime Fis­heries til veiða við Græn­land.  GPG Seafood keypti skipið á síðasta ári og er heimahöfn þess Raufarhöfn.

Í viðtali við Gunnlaug Karl í Morgunblaðinu á dögunum kom m.a fram að á síðastliðnu ári hefur verið skipt um aðal­vél og ljósa­vél­ar í skip­inu og ým­is­legt annað sem véla­skipt­un­um fylg­ir. 

Þá var skipt um kælimiðil, farið úr freon yfir í glycol, og fyr­ir um tveim­ur árum var stál í skip­inu end­ur­nýjað. Síðustu mánuði hef­ur verið unnið að ýms­um end­ur­bót­um á skip­inu í Hafnar­f­irði. 

Í veiðiferðinni nú er öðrum þræði verið að fínstilla búnað. Frysti­vél­ar eru um borð í Jökli, en fyrst í stað að minnsta kosti verður hrá­efn­is aflað fyr­ir fisk­vinnslu í landi.

Áhöfn­in á Herði Björns­syni ÞH 260 fór yfir á Jök­ul, en Herði verður lagt við bryggju næstu mánuði. Ákvörðun um fram­haldið ligg­ur ekki fyr­ir að sögn Gunn­laugs. Hörður Björns­son ÞH var upp­haf­lega smíðaður í Nor­egi 1964. Segir í Morgunblaðinu en eins og margir vita hét hann upphaflega Þórður Jónasson.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Jökull ÞH 299 kemur til hafnar á Húsavík í morgun.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Karlinn í brúnni, Þórður Birgisson.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Gunnlaugur Karl Hreinsson stjórnarformaður GPG Seafood tók við endanum.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Sigurður Ólafsson viðhaldstjóri GPG Seafood tekur við framendanum

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Árninna Ósk Stefánsdóttir og Gunnlaugur Karl Hreinsson við hið nýja og glæsilega skip GPG Seafood.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Hér er verið að kara Jökul eftir löndun.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Jökull utan á Þvergarðinum og Hörður Björnsson við Suðurgarðinn til móts við húsakynni GPG Seafood.

Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744