Íþróttir og börn í fyrirrúmi

Pabbi átti sér þann draum að ég yrði knattspyrnustjarna framtíðarinnar.

Íþróttir og börn í fyrirrúmi
Aðsent efni - - Lestrar 176

Pabbi átti sér þann draum að ég yrði knattspyrnustjarna framtíðarinnar.

Sú von varð úti þegar ég valdi sem ungur drengur að æfa sund og hætti í fótbolta. Íþróttaiðkun hefur sterk jákvæð áhrif á líðan barna og ungmenna; andlega, líkamlega og félagslega. Foreldrar vænta þess að börn þeirra sæki skipulagt íþróttastarf, hvort sem um ræðir sund, knattspyrnu eða rafíþróttir í þeim tilgangi að bæta líkamlega heilsu, andlega líðan, örva félagsleg samskipti og að þau tilheyri samfélagi.

Skipulagt íþróttastarf hefur þess vegna fjölþætt gildi. Íþróttir eru vinsælasta tómstundaiðkun barna en í kringum 12 ára aldur stunda rúmlega fjögur af hverjum fimm ungmennum íþróttir með íþróttafélagi. Við þurfum að leggja mikla áhersla á að íþróttafélög bjóði upp á ábyrgt og gott starf fyrir öll börn með gleði og ánægju að leiðarljósi.  Í því felst m.a. að þjálfarar hafi viðeigandi fagmenntun (t.d. íþróttafræðingar/-kennarar, þjálfaramenntun ÍSÍ og sérsambanda), að börn geti tekið þátt á sínum forsendum og foreldrar taki virkan þátt í starfinu. Þess vegna er Völsungur og öll íþróttafélög snar þáttur í lífi hvers barns sem samfélaginu ber að hlúa að.

Stórt skref í íþróttasögunni

Fyrir nokkrum árum var byggður gervigrasvöllur á Húsavík. Sem er ein mikilvægasta framkvæmd í íþróttasögu svæðisins í langan tíma. Það var að frumkvæði Framsóknar og það voru fulltrúar Framsóknarflokks sem drógu þann vagn. Það er mikilvægt að halda því til haga. Undanfarin ár hef ég haldið því á lofti að íþróttafélagið Völsungur fagnar aldarafmæli og við þurfum að hefja undirbúning að næsta stóra skrefi í íþróttamálum. Það verður að gerast í samstarfi við Völsung. Þess vegna er mikilvægt að íþróttafélagið standi félagslega sterkt til að takast á við verkefnið með samfélaginu.

Já, það er afstaða okkar í framboði B-lista framsóknar að hlúa myndarlega að íþrótta- tómstunda- og æskulýðsstarfi. Það er brýnt fyrir vöxt Völsungs að sveitarfélagið standi þétt við hlið félagsins og að samskipti séu góð og uppbyggileg. Það er óþarfi að hanga með lausa enda svo allir tapi og sveitarfélagið á að standi við sitt.

Já, það er afstaða okkar í framboði B-lista framsóknar að móta þurfi stefnu í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmálum. Það hafa mörg sveitarfélög gert með góðu móti sem eflir samfélagið allt. Það er í samræmi við tillögur okkar á líðandi kjörtímabili.

Hagur ungmenna, barna og almennings.

Hvað varðar hagi barna og ungmenna hefur áhersla okkar framboðs verið að byggja upp frístund annarsvegar og félagsmiðstöð hinsvegar. Auk þess að tryggja aðkoma nýrra íbúa að starfinu með áherslu á börn og ungmenna af erlendum uppruna. Sömuleiðis að auka aðgengi barna og ungmenna utan Húsavíkur að íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Sérstök áhersla er á uppbygging rafíþrótta. Þá leggjum við mikla áherslu á áframhaldandi uppbyggingu á útivistar- og skíðasvæði við Reyðarárhnjúk á heilsársgrunni.

Það er áhersla á það í okkar framboði B-lista framsóknar að efla almenningsíþróttir með áherslu á útiveru og heilsueflandi aðgerðum s.s. með útiæfingasvæði víðsvegar í þéttbýli. Um leið þarf að hlúa að viðhaldi þeirra eigna sem sveitarfélagið hefur byggt upp í málaflokknum. Sérstaklega verður að huga að þeirri stóru og miklu fjárfestingu sem íþróttasvæðið á Húsavík er.

Sveitarfélagið þarf að standa við sitt.

Það þarf að vera alveg skýrt að sveitarfélagið rekur íþróttasvæðið sem um ræðir. Það þarf að endurskoða það og gera betur. Kosti það aukinn mannafla að hálfu sveitarfélagsins og betra samstarf við Völsung þá leysum við það. Hlutverk aðila máls þurfa að liggja fyrir og vera á hreinu svo sómi sé að. Það á að vera vilji okkar allra að myndarlega sé staðið að svæðinu og umhverfi þess sé hluti af staðarstolti okkar íbúa. Umferð um svæðið er gríðarlega mikil og notkun eftir því. Það segir okkur að það eru miklir möguleikar í samvinnu á svæðinu og byggja upp sterkara íþróttafélag og styrkja þannig innviði samfélagsins.

Áfram Völsungur.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti B-lista


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744