Íþróttamaður Húsavíkur 2011

Eins og fram hefur komið hér á síðunni var Hafþór Mar Aðalgeirsson valinn Íþróttamaður Húsavíkur árið 2011 og var kjörinu lýst í gær.

Íþróttamaður Húsavíkur 2011
Íþróttir - - Lestrar 447

Eins og fram hefur komið hér á síðunni var Hafþór Mar Aðalgeirsson valinn Íþróttamaður Húsavíkur árið 2011 og var kjörinu lýst í gær. Bjarki Þór Jónasson varð í öðru sæti og Sigurður Unnar Hauksson í þriðja.

Umsagnir um þá kappa sem lesin var upp við þetta tækifæri birtast nú hér að neðan.


Hafþór Mar Aðalgeirsson 

Um árangur hans  sem besti Knattspyrnumaður  ársins 2011  á Húsavík 17 ára og eldri segir:    

” Hafþór hefur átt mjög gott ár 2011. Hann spilaði 21 leik með meistaraflokk Völsungs á tímabilinu og skoraði í þeim 9 mörk einnig tók hann þátt í landsliðsverkefnum U17 og U19 landsliða Íslands samtals 6 leiki. Haffi náði einnig að skora með landsliðinu í 1- 5 sigri Íslands á Wales. Haffi  spilar að jafnaði  stöðu hægri kantmanns og er andstæð-ingum sínum erfiður vegna hraða og snerpu. Hafþór hefur farið mikið fram sem leikmanni sem sést á því að hann er einungis 17 ára gamall og hefur nú þegar spilað 31 leik með meistarafl. Völsungs og 11 landsleiki. Það eru ófáar ferðirnar sem hann hefur flogið til Reykjavíkur á árinu 2011 til æfinga með landsliðum. Hafþór sinnir knattspyrnunni af miklum áhuga og ákafi hans innan vallar er stundum á mörkum þess að vera of mikill en það er greinilegt að þarna er á ferðinni mikið efni. 

Utan vallar sinnir Hafþór námi við FSH ásamt öðrum áhugamálum sem oft hlítur að krefjast mikillar skipulagningar og góðs stuðnings fjölskyldu.

Hafþór er vel að tilnefningu knattspyrnumanns ársins 17 ára og eldri 2011”

Árangur Hafþórs Mar á knattspyrnuvellinum í íþrótt sinni er frábær og slíkur metnaður og sigrar ætti að vera mikil hvatning fyrir annað ungt íþróttafólk á Húsavík. 

Hafþór Mar hefur þrátt fyrir ungan aldur áður verið valinn knattspyrnumaður ársins á Húsavík, stendur nú efstur í vali á Íþróttamanni Húsavíkur fyrir árið 2011 og sýnir og sannar að hann er frábær íþróttamaður og vel að þessum titli kominn.

 

Bjarki Þór Jónasson

Bjarki sem aðeins var 16 ára á liðnu ári, hefur æft og spilað með öllum yngri flokkum Völsungs. Hann æfði mjög vel í byrjun árs þó hann ætti við meiðsli að stríða sem honum tókst svo að vinna bug á þegar leið á vorið.

Hann var valinn í úrtökuhóp  U-16 ára karlaliðs Íslands og endaði með því að vera valinn  í lið Íslands 2 sem tók þátt í Norðulandamótinu sl. sumar, en það var að þessu sinni haldið hér á landi og fóru leikirnir fram hér norðanlands. 

Bjarki spilaði meðal annars í hjarta varnarinnar í liði Íslands 2 hér á Húsavíkurvelli og náði einnig að skora eitt mark fyrir lið sitt sem hafnaði í fjórða sæti á mótinu aðeins hársbreidd frá því að leika til úrslita við lið Íslands 1, en lið Íslands 1 stóð svo uppi sem sigurvegari mótsins eftir sigur á Dönum. 

Bjarki lék með 3.fl. Völsungs og fór oft mikinn á vellinum jafnt sem miðvörður eða miðvallarleikmaður og var það mál manna í „brekkunni“ að þarna væri mikill „refur“ á ferð og má umbúðalaust  kvitta undir það. 

Um miðbik sumars fór Bjarki að banka nokkuð þungt á dyr meistaraflokks Völsungs,  þessi högg þyngdust er leið á seinni umferð ísl.mótsins og endaði svo með því að dyrnar gáfu sig. 

Þarna var ekki aftur snúið hjá Bjarka og tók hann þátt í síðustu leikjum mfl. Völsungs sumarið 2011 og stóð sig með miklum „bravör“.  

Bjarki er því vel að þessari viðurkenningu kominn.

 

Sigurður Unnar Hauksson

Skotfélag Húsavíkur tilnefnir Sigurð Unnar Hauksson sem skotíþróttamann Húsavíkur. Sigurður náði frábærum árangri á árinu og ber þar helst að nefna þegar hann varði Íslandsmeistaratitil sinn  í unglingaflokki með glæsilegum árangri þegar hann skaut 100 af 125 dúfum. Verður það að teljast eftirtektarvert skor þar sem Sigurður hefur aðeins stundað skotfimi í 2 ár.

 Lagði hann þá meðal annars fyrrum fjórfaldan Íslandsmeistara.

 Þá varð Sigurður einnig bikarmeistari unglinga á árinu. 

Á innanfélagsmótum stóð Sigurður sig einnig mjög vel og endaði á verðlauna-palli á öllum mótum sem hann tók þátt í.

Þessum árangri má meðal annars þakka að Sigurður hefur verið undir handleiðslu eins af landsliðsmönnum Íslands sem kom sérstaklega til Húsavíkur til að þjálfa hann.         

Þá hefur Sigurður einnig farið þó nokkrar ferðir suður til æfinga, kom það til út af eftirtektarverðum árangri hans árið 2010. 

Það má með sanni segja að þessar æfingar hafi skilað sér eins og sjá má á hans árangri nú á árinu.

Sigurður hefur mikinn metnað og hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri og er hann góð fyrirmynd fyrir þá sem vilja stunda og ná árangri í skotíþróttum.

Sigurður  er efnilegur skotmaður þó ungur sé aðeins 17 ára og á eftir að ná langt í íþróttinni haldi hann áfram á þessari braut.

Tilnefingar til kjörs á Íþróttamanni Húsavíkur 2011 voru eftirfarandi:

Knattspyrna                    16 ára og yngri          Bjarki Þór Jónasson.

Knattspyrna                    17 ára og eldri           Hafþór Mar Aðalgeirss.

Handknattleikur            16 ára og yngri          Heimir Pálsson

Handknattleikur            17 ára og eldri           Alexander G Jónasson

Frjálsíþróttir                   16 ára og yngri          Brynjar Örn Arnarsson

Frjálsíþróttir                   17 ára og eldri           Selmdís Þráinsdóttir

Skíði                                16 ára og yngri          Fannar R Þorláksson

Skíði                                17 ára og eldri           Kristófer R Þorláksson

Sund                                 16 ára og yngri         Valdís Jósefsdóttir

Fimleikar                        16 ára og yngri          Huld Grímsdóttir

Fimleikar                        17 ára og eldri           Jónína Rún Agnarsd.

Boccia                           16 ára og yngri           Lena Kristín Hermannd.

Boccia                            17 ára og eldri           Kristbjörn Óskarsson

Golf                                16 ára og yngri           Reynir Örn Hannesson

Golf                                 17 ára og eldri           Birna Dögg Magnúsd.

Hestaíþróttir                16 ára og yngri           Dagný Anna Ragnarsd.

Hestaíþróttiir                17 ára og eldri          Einar Víðir Einarsson

Skotíþróttir                    17 ára og eldri          Sigurður Unnar Haukss.

 



  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744