Hvatning til íbúa og gesta á Mærudögum vegna fjölgunar Covid smita á landinu

Því miður hefur Covid- smitum á landinu fjölgað mjög ört síðustu daga.

Húsavík í dag.
Húsavík í dag.

Því miður hefur Covid- smitum á landinu fjölgað mjög ört síðustu daga.

Á fundi Almannavarnanefndar í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í morgun kom fram að 8 smit hafa nú greinst í umdæminu sl. tvo daga.

Sé tekið mið af orðum sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi í morgun er líklegt að nýjar reglur um fjöldatakmarkanir verði kynntar á næstu dögum.

Mikill undirbúningur hefur farið fram vegna fyrirhugaðra Mærudaga á Húsavík um helgina og það er okkur hjá sveitarfélaginu afar mikilvægt að bæði íbúar og gestir taki höndum saman og skemmti sér af ábyrgð í ljósi þess hve samfélagslegt smit virðist orðið útbreitt á landinu.

Fólk er eindregið hvatt til þess að gæta sérstaklega vel að eigin sóttvörnum. Mælt er með því að allir íbúar og gestir á Mærudögum og annarsstaðar í sveitarfélaginu séu duglegir við að spritta og þvo hendur og nota grímu þar sem hópamyndun er, hvort heldur það sé innandyra eða utan.

Sérstaklega eru þjónustu- og söluaðilar hvattir til að passa uppá hreinlæti og sýna sérstaklega gott fordæmi hvað sóttvarnir varðar. Sömuleiðis er fólk hvatt til að gæta almennrar varúðar í umgengni m.t.t. snertingar og að sérstök aðgát sé höfð við heimsóknir á hjúkrunarheimili og til viðkvæmra hópa.

Komi til þess að stjórnvöld grípi til fjöldatakmarkandi aðgerða verðum við að bregðast hratt við því. Fólk er hvatt til að fylgjast grannt með tilkynningum frá stjórnvöldum næstu daga.

Sýnum ábyrgð og gott fordæmi öll sem eitt. Samtakamátturinn í þessu sem öðru sigrar að lokum.

 Fyrir hönd Norðurþings,

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744