Hreyfivikan ,,Move Week“ býður upp á fjölda tækifæra fyrir almenningFréttatilkynning - - Lestrar 362
Hreyfivikan „MOVE WEEK“ fer fram um gjörvalla Evrópu dagana 29.september – 5.október nk. Hreyfivikan
”MOVE WEEK” er hluti af “The NowWeMove 2 012-2020 ” herferð International Sport and Culture Association (ISCA) sem hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttum til heilsubótar. Framtíðarsýn herferðarinnar er “að 100 milljónir fleiri Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020” ”að fólk finni SÍNA hreyfingu sem hentar því”. Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).
Sambandsaðilar UMFÍ munu taka virkan þátt í Hreyfivikunni ”MOVE WEEK” og bjóða upp á fjölda viðburða og tækifæra fyrir fólk til að kynna sér fjölbreytta hreyfingu sér til heilsubótar. Þátttakendur eru hvattir til að fylgjast á www.umfi.is og á http://www.iceland.moveweek.eu/ skráð sig og vera með í því að koma Ísland á hreyfingu í HREYFIVIKUNNI. Allar nánari upplýsingar gefur Sabína Steinunn landsfulltrúi UMFÍ sabina@umfi.is
Þess má geta að á Hreyfiviku í fyrra fékk Íþróttafélagið Höttur, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og sveitarfélagið Fljótsdalshérað verðlaun sem eitt besta verkefnið í evrópsku ,,Move Week“ herferðinni. Tekið var eftir samvinnu ólíkra hópa í samfélaginu sem lögðust á eitt til að stuðla að aukinni hreyfingu. Allar deildir Hattar stóðu til dæmis fyrir opnum æfingum þar sem gestir fengu án endurgjalds að prófa viðkomandi grein. Fleiri íþróttafélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök, svo ekki sé minnst á sveitarfélagið sjálft, tóku virkan þátt í vikunni sem lauk með opnum degi í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum þar sem sjálfur íþróttaálfurinn kom í heimsókn. Með Hreyfivikunni tókst aðilunum fyrir austan að vinna verkefnið á sínum eigin forsendum.
,,Þetta verkefni leggst gríðarlega vel í mig og þegar nær dregur þá er ljóst að fleiri eru að taka þátt núna en í fyrra. Það voru þrjú héraðssambönd sem tóku þátt í Hreyfiviku að einhverju leyti í fyrra en að þessu sinni er útlit fyrir að 12-14 bæjar- og samfélög úti á landi keyri þetta verkefni áfram. Fyrirtæki og skólar vítt og breitt hafa verið í sambandi við mig svo það er ljóst að mun meiri áhugi er fyrir Hreyfivikunni en undanfarin ár. Það er gaman að okkur er að fjölga og draumurinn auðvitað að við verðum alltaf fleiri sem tökum þátt,“ sagði Sabína Steinunn Halldórsdóttir landsfulltrúi UMFÍ og verkefnastjóri Hreyfivikunnar.
Sabína Steinunn sagði öllum mikilvægt að hreyfa sig og markmiðið væri að fjölga verulega í þessum hópi.
,,Það er talið að um 600 þúsund manns deyi árlega í Evrópu sem rekja megi til hreyfingarleysis. Það er engin að tala um að það þurfi allir að fara í fjallgöngu og í ræktina á hverjum degi heldur þurfi hver og einn að finna sína hreyfingu. Almennar ráðleggingar frá Embætti Landlæknis er einhver hreyfing í 60 mínútur á dag eða að lágmarki 30 mínútur sem hjartað fær að hoppa duglega á hverjum degi. Við þurfum því ekki að sjá af miklum tíma til að bæta heilsu okkar. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og þátttakendum er alltaf að fjölga. Við stefnum að því að árið 2020 getum við sýnt allri Evrópu að við getum haldið hér nokkurs konar ,,Hreyfiviku Íslands“ og allir viti út á hvað hún gengur,“ sagði Sabína Steinunn Halldórsdóttir.