Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hlýtur viðurkenninguAðsent efni - - Lestrar 414
Vinnuverndarvika Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar árið 2008 stendur nú yfir ogþriðjudaginn 21. október hlaut Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HÞ) viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu fyrir að vera góð fyrirmynd á sviði vinnuverndar og hafa markvisst unnið að forvörnum. Í vinnuverndarvikunni er sjónum beint að mikilvægi þess að gert sé áhættumat fyrir alla vinnustaði. Áhættumatið á að styrkja vinnuverndarstarfið innan fyrirtækjanna með skýrri ábyrgð og virkni atvinnurekenda, stjórnenda og kerfisbundinni þátttöku starfsmannanna sjálfra með hjálp öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.
Við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga starfa um 160 manns. Undir stofnunina heyra sjúkrahúsið á Húsavík og sex heilsugæslustöðvar: á Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Reykjahlíð og Laugum. Á stofnuninni starfar áhugasamur, samstilltur og ábyrgur hópur fólks sem hefur lagt sitt að mörkum í vinnuverndarstarfi.
Hópurinn hefur undir stjórn öryggisnefndar unnið að gerð áhættumats fyrir stofnunina, tekið þátt í ýmsum könnunum á starfsumhverfi, komið með ábendingar og tilllögur til úrbóta á vinnuumhverfi og unnið markvisst að þeim. Að mati Vinnueftirlitsins er vinnuverndarstarf Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga til mikillar fyrirmyndar og var því ákveðið að veita fyrirtækinu viðurkenningu.
Á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga ríkir mikil ánægja meðal starfsmanna með viðurkenninguna. Það er mikils virði fyrir HÞ að starfsmenn hafa með virkri þátttöku náð að skapa gott vinnuumhverfi á stofnuninni þar sem almenn starfsánægja er við völd.