Framtíð Norðurþings er björt

Framtíð Norðurþings er björt ef rétt er haldið á spilunum.

Framtíð Norðurþings er björt
Aðsent efni - - Lestrar 234

Reynir Ingi Reinhardsson.
Reynir Ingi Reinhardsson.

Framtíð Norðurþings er björt ef rétt er haldið á spilunum.

Mikil tækifæri blasa við í atvinnu- og uppbyggingar-málum og því er nauðsynlegt að allur undirbúningur og skipulag sé hugsað til lengri tíma. 

Við í S-listanum leggjum þunga áherslu á að skipulag og áætlanir séu hugsaðar til að minnsta kosti átta ára og helst nokkra áratugi fram í tímann. Einungis þannig er hægt að vanda til verka og koma í veg fyrir skyndilausnir og illa ígrundaða plástra hér og þar.

Við viljum nýtt, grænt og metnaðarfullt aðalskipulag þar sem börn og fjölbreytt samfélag fólks er sett í fyrsta sæti. Til að vinna sérstaklega að því markmiði viljum við ráða metnaðarfullan ráðgjafa sem hefur þekkingu, reynslu og framtíðarsýn í skipulags- og umhverfismálum. Á kjörtímabilinu var hafist handa við gerð umhverfisstefnu sem við teljum mikilvægt að ljúka og samtvinna aðalskipulagi enda er skipulag ekkert án framtíðarsýnar í umhverfismálum. Þá er afar brýnt að sveitarfélagið fari í víðtækt samráð við íbúa við gerð slíks skipulags. Árangur slíkrar vinnu setur tóninn um hvert sveitarfélagið vill stefna til lengri tíma. 

S-listinn vill að sveitarfélagið nýti betur auðar lóðir og reiti innanbæjar til frekari húsnæðisuppbyggingar. Mikilvægt er að áframhaldandi húsnæðisuppbygging taki mið af þörfum ungs fólks og þá sérstaklega ungs fólks með börn. Byggja þarf íbúðir þar sem stutt er í alla þjónustu og þá sérstaklega leik- og grunnskóla og íþrótta- og menningarstarfsemi. Við viljum að á næstu tveimur árum verði búið að hanna heildarmynd af nýju hverfi í Grundargarði á Húsavík sem verði tilbúið til uppbyggingar. Sú uppbygging þarf að hafa það að markmiði að skapa grænt og fjölskylduvænt hverfi þar sem börn geta á öruggan hátt gengið og hjólað í skóla og tómstundir. Jafnframt ætti sveitarfélagið að gera kröfur til byggingaraðila um að þeir vandi til verka við allan frágang og skapi þannig græn rými fyrir íbúa með áherslu á gangandi og hjólandi. Þá þarf að kortleggja og skýra betur iðnaðarsvæði innanbæjar á Húsavík, má þar til að mynda horfa til iðnaðarlóðanna sem staðsettar eru við Mararbraut við innkomuna í bæinn. Í samvinnu við fyrirtæki væri hægt að finna þeim hentugri lóðir fyrir sína starfsemi og með því er opnað á tækifæri til að byggja íbúðarhúsnæði á besta stað í bænum með stórbrotið útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Þannig yrði innkoman í bæinn mun fallegri og skemmtilegri fyrir bæði íbúa og þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem sækja Húsavík heim. 

Með þéttingu byggðar og fleiri lóðum vill S-listinn tryggja nægt framboð af hentugu húsnæði fyrir alla og gera byggðina sjálfbærari í öllu sveitarfélaginu. Einungis þannig getum við lagt grunn að heilnæmara samfélagi og fjölbreyttari samgöngum. 

Reynir Ingi Reynhardsson.

Höfundur skipar þriðja sæti á S-lista Samfylkingar og annars
félagshyggjufólks í Norðurþingi. 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744