Fótboltaveisla um MærudagaAlmennt - - Lestrar 471
Það er löngu orðinn fastur liður í dagskrá Mærudaga að meistaraflokkar Völsungs í knattspyrnu spili heimaleiki og verður engin undantekning á því í ár.
Reyndar verður heilmikið húllumhæ á Húsavíkurvelli því ekki aðeins eiga meistarflokkarnir okkar heimaleiki heldur einnig 2. flokkur karla og 2. flokkur kvenna. Það er sem sagt fótboltaveisla framundan, svo mikið er víst.
Fjörið byrjar á fimmtudagskvöld þegar meistaraflokkur kvenna tekur á móti sameiginulegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður fírað upp í grillinu um það leyti. Stelpurnar okkar eru í hörkubaráttu í deildinni, þær sitja sem stendur í þriðja sæti deildarinnar, og ætla sér svo sannarlega sigur í þessum leik. Mótherjarnir eru í fimmta sæti deildarinnar og við reiknum með skemmtilgum baráttuleik.
Meistaraflokkur karla tekur á móti Víði á laugardaginn klukkan 14:00. Jói þjálfari fer yfir stöðuna með stuðningsmönnum klukkutíma fyrir leik og grillið góða verður að sjálfsögðu á sínum stað meðan á leik stendur. Það eru ekki mörg stig sem skilja að liðin í efstu sætum 2. deildar karla og verma okkar menn þar annað sætið, aðeins einu stigi á eftir Aftureldingu og einu stigi á undan Gróttu. Víðir er í áttunda sæti og hefur liði unnið síðustu tvo leiki – þetta verður hörkuleikur.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því 2. flokkur karla og 2. flokkur kvenna eiga einnig leik á laugardaginn. Kl. 11:00 mætast Völsungur og Grindavík/GG í 2. flokki karla og kl. 16:00 tekur Völsungur á móti sameiginlegu liði Aftureldingar, Fram og Víkings Ólafsvík í 2. flokki kvenna. Líf og fjör, maður lifandi.
Í tilefni Mærudaga verður aðgangur ókeypis á þessa Mæruleiki en það eru KEA, Jako og Bílaumboðið Askja sem bjóða öllum á völlinn, og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Það verður því nóg um að vera fyrir knattspyrnuáhugafólk um helgina. Við hlökkum til að sjá ykkur í brekkunni.
Áfram Völsungur.