Fjölmenni og brautarmet í Botnsvatnshlaupi LandsbankansÍþróttir - - Lestrar 250
Hið árlega Botnsvatnshlaup Landsbankans fór fram síðdegis í gær.
Það voru SMIÐJAN og Hlaupahópurinn Skokki sem stóðu að hlaupinu í samvinnu við Landsbankann á Húsavík.
Boðið var upp á tvær vegalengdir 3,3 km og 8,3 km en bæði hlaupin enduðu í Skrúðgarðinum við Kvíabekk.
Frábært hlaupaveður var á svæðinu, logn og ágætis lofthiti þó þokukennt væri. Þátttaka var með mesta móti en samtals 80 hlauparar skeiðuðu vegalengdirnar tvær og munaði sérstaklega um fjöldamarga krakka og ungmenni sem tóku þátt og stóðu sig með sóma.
Töluvert var um þekkt nöfn í hinum íslenska hlaupaheimi enda féllu brautarmet í 8,3 km hlaupinu í bæði karla og kvennaflokki.
Þorbergur Ingi Jónsson setti afar glæsilegt brautarmet en hann kom í mark á 28:17 og bætti þar met Sigurjóns Ernis Sturlusonar sem staðið hafði síðan 2020.
Í kvennaflokki kom Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir fyrst í mark á 32:59 og bætti þar sjö ára gamalt brautarmet Írisar Önnu Skúladóttur.
Nánar má lesa um úrslit hlaupsins á timataka.net
Frá vinstri: Rannveig Oddsdóttir 2 sæti, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir 1 sæti og Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir 3 sæti.
Frá vinstri: Reynir Zoega 2 sæti, Þorbergur Ingi Jónsson 1 sæti og Óli Hilmar Ólason 3 sæti.