Færði Norðurþingi ljósmynd að gjöf

Fimmtudaginn 2. september 2021 kom Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, færandi hendi á sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings á Húsavík.

Færði Norðurþingi ljósmynd að gjöf
Almennt - - Lestrar 166

Fimmtudaginn 2. september 2021 kom Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, færandi hendi á sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings á Húsavík. 

Þar afhenti hún Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings, forláta ljósmynd af Húsavík í veglegum ramma.

Gjöfinni fylgdi skjal, þar sem fram kemur að hún sé gefin í tilefni 70 ára afmælis kaupstaðaréttinda yngsta kaupstaðar norðurlands, en Húsavíkurkaupstaður hlaut kaupstaðaréttindi 1. janúar 1950. Forsagan er hinsvegar sú að Húsavíkurkaupstaður færði Akureyrarbæ myndina að gjöf á aldarafmæli kaupstaðarréttinda Akureyrar þann 29. ágúst 1962.

Á myndinni eru tveir silfurskildir. Á öðrum þeirra kemur fram í áletrun „Yngsti kaupstaður Norðurlands, Húsavík, árnar elzta kaupstaðnum, Akureyri, höfuðstað Norðurlands, allra heilla á aldarafmæli kaupstaðarréttinda hans. 29. ágúst 1962. Bæjarstjórn Húsavíkur“. Hinn skjöldurinn inniheldur vísu Huldu um Húsavík  „ Opið haf og heiðkvöld skær,  Þér himin gaf,  Glóir vafinn Garðarsbær,  Í geislatraf“. 

Ljósmyndin var tekin af Óla Páli, líklega sumarið 1962.

Í skjali stendur:
"Sveitarfélögin eru bæði í fararbroddi þegar kemur að endurvinnslu og endurnýtingu. Því er við hæfi að Akureyrarbær endurnýti gjöf sem bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar færði Akureyri, höfuðstað Norðurlands, á aldarafmæli kaupstaðaréttinda Akureyrar 29. ágúst 1962. Þessari fallegu ljósmynd verður vonandi fundinn góður staður í Stjórnsýsluhúsi Norðurþings á Húsavík þar sem hún mun sóma sér hið besta."


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744