Ég virkja þig, stormur!

Sú var tíðin að Einar Benediktsson skáld gerði tilraun til þess að selja Norðurljósin – hann hefði alveg eins getað reynt að selja íslenska storminn á

Ég virkja þig, stormur!
Aðsent efni - - Lestrar 336

Kári Gautason.
Kári Gautason.

Sú var tíðin að Einar Benediktsson skáld gerði tilraun til þess að selja Norðurljósin – hann hefði alveg eins getað reynt að selja íslenska storminn á þeim tíma.

Aðstæður voru ekki fyrir hendi að nýta mætti þessar auðlindir. Nú öld síðar eru norðurljósin seld í formi norðurljósaferða og allt stefnir í að rokið verði brátt að markaðsvöru.  Það er þó ekki lengra síðan en svona áratugur að grínast var með frumkvöðla í vindorku og hlegið að því að einu vindmyllurnar á Íslandi, sem reistar voru, hefðu fokið. 

Undanfarin ár hefur verið vaxandi umræða um vindmyllugarða. Landsvirkjun skipuleggur einn slíkan við Búrfell og tugir erlendra aðila eru á höttunum eftir þeim aðföngum sem til þarf að taka svo  græða megi peninga á íslenskum strekkingi, það er að segja landi. Fréttir hafa birst um stór verkefni á Norðausturhorninu og þar hafa þessi mál verið til umræðu á vettvangi sveitastjórnar í Norðurþingi.  Þar var skipulagsbreytingum, sem snúast um að breyta aðalskipulagi þannig  að hægt sé að reisa tugi  vindmylla, nýlega frestað. 

Fyrst þarf að virkja jarðalögin

Sjá þarf svo um á næstu árum að fjármagnið, sem íslenskur blástur  getur sannarlega myndað, verði til þess að styrkja byggðir og atvinnulíf á Íslandi. Við ættum að láta norska sjókvíaeldið verða okkur víti til varnaðar í þessu samhengi. Þar var norsku fjármagni leyft að helga sér svæði ókeypis áður en regluverk hafði verið mótað og fullnægjandi lagaumhverfi tryggt. Sjókvíaeldið skapar þó vinnu og tekjur í byggðunum að vissu marki  Það væri hinsvegar eins og hvert annað arðrán ef auðugir aðilar fengju  að kaupa upp jarðir til þess að  troða  þangað vindmyllulundum sem væru ótengdir atvinnulífi í byggðunum. Þeir  myndu lítið skilja eftir  í formi starfa eða fasteignagjalda þegar framkvæmdatíma lyki. Það væri öfugsnúin byggðastefna, einhverskonar nýlendustefna.

Af þessum sökum þarf að halda áfram að endurskoða umgjörð um jarðamál í landinu. Vindorka er þjóðarauðlind en þó svipar henni einnig til hlunninda. Forsenda nýtingar á vindinum sem auðlind er  að eiga land til að reisa á vindmyllu. Því eru jarðalögin mikilvægustu lögin í tengslum við vindorkuna . Þau lög þarf að sníða þannig að að arðurinn af vindvirkjunum verði eftir í heimabyggð en hverfi ekki inn í spunahjól fjárfestingarsjóða. Það má segja að sú vinna hafi hafist undir forystu Katrínar Jakobsdóttur í forsætisráðuneytinu. Fyrsta skrefið var tekið um mitt ár 2020 þegar lög voru samþykkt sem takmarka mjög jarðasöfnun auðmanna. Það skipir máli hver stjórnar.

Næsta skref er að setja almennilegt regluverk í kringum vindorkuna þannig að uppbygging verði á forsendum byggðanna og með hagsmuni nærsamfélagsins að leiðarljósi. Þeim forréttindum að eiga jarðir þarf að fylgja ábyrgð gagnvart samfélaginu. Ábúðarskylda á jörðum hlýtur að koma þar til álita. 

Vindorkan efli atvinnulíf og byggðir

Með því  að heimamenn séu eigendur af vindmyllum  skapast arður sem verður eftir í heimabyggð. Það sem skort hefur á landsbyggðinni eru fleiri uppsprettur fjármagns sem nýta má til að fjárfesta í uppbyggingu ýmiskonar atvinnustarfsemi. Atvinnumál á Íslandi taka sífelldum breytingum, í eina tíð voru hér eingöngu fiskimenn og bændur. Á liðinni öld byggðist hér upp nútímasamfélag með því að nýta auðlindir lands og sjávar í þágu atvinnuuppbyggingar. Nú ríður á að þessi nýja auðlind, vindorkan, verði til þess að efla atvinnulíf og byggðir. Þá verður gleðiþytur vakinn í blaðsterkum lund, svo vísað sé að endingu til stormskáldsins Hannesar Hafsteins. 

Höfundur skipar fjórða sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðaustur kjördæmi


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744