Ég las einhversstaðar að maður ætti að elska það sem maður gerirAlmennt - - Lestrar 854
Nýverið hóf Helga Björg Sigurðardóttir að bjóða upp á heilsunudd í Sjóböðunum á Húsavík.
Tíðindamaður 640.is leit við hjá henni á höfðanum í vikunni og ræddi við hana um starf hennar sem henni er greinilega mjög annt um.
“Hérna ætla ég að bjóða Húsvíkingum og gestum Sjóbaðanna upp á heilsunudd aðra hverja viku en hina vikuna er ég að nudda á fallegu lúxushóteli í Fljótum í Skagafirði. Það heitir Deplar Farm en þar sé ég einnig um heilsulindina” segir Helga Björg sem hóf að nudda í Fljótunum í nóvembermánuði árið 2017.
Helga Björg vann sem læknaritari á HSN á Húsavík og hélt því áfram fyrst um sinn þá viku sem hún var heima. Hún sá þó fljótlega að það var of mikið fyrir hana þannig að hún hætti því sl. sumar og fór aðeins að nudda heima hjá sér.
“Ég datt svo heldur betur í lukkupottinn að fá þetta tækifæri hérna í Sjóböðunum, mögulega var ég búin að suða aðeins í Sigurjóni hvort hann hefði ekki herbergi handa mér og hann loksins fann eitt svona líka passlegt. Sjóböðin eru einstök, saltvatnið hefur marga heilsubætandi kosti og fegurðin allt í kring líka, bæði í arkitektúr og umhverfi. Sjóböðin og heilsunudd er gott par.
Ég las einhversstaðar að maður ætti að elska það sem maður gerir, Do what you love and you never have to work another day. Það er dálítið svoleiðis hjá mér núna, ég virkilega nýt þess að dvelja aðra hvora viku á Deplum og sinna minni skemmtilegu vinnu þar. Og koma svo heim í faðm fjölskyldu og vina og geta boðið upp á nudd í einstöku umhverfi hér líka.
Það hefur stundum verið dálítið ævintýri á þessum tíma að fara í vikulega á milli Húsavíkur og Depla en ég kemst alltaf á leiðarenda, Súkkan mín verður stundum eftir á Siglufirði og jafnvel Akureyri ef veðrið er mjög vont. Þegar nýju Vaðlaheiðargöngin opnuðu þá urðu þau fimmtu göngin á leið minni í vinnuna, væri alveg til í að hafa þau fleiri á þessari leið.
Deplar Farmhótel.
Það er líka ævintýri að vinna í Fljótunum og ég er þakklát fyrir að hafa gefið þeim séns, ég var mjög tvístígandi þegar mér bauðst þessi vinna en féllst að lokum á að koma í heimsókn en eiginlega ákveðin í að láta það bara duga. En það var ekki aftur snúið. Ég segi stundum að ég hafi fengið svo gott Cafe latte þegar ég mætti en það er bara allt við þennan stað, fjöllin og umhverfið. Hótelið er mjög fallegt og lúxus vinnuaðstaða og svo er samstarfsfólkið frábært, það eru snillingar í hverri stöðu og við erum eins og ein stór fjölskylda” segir Helga Björg og ljómar öll þegar hún talar um veru sína í Fljótum.
Aðspurð um hvenær hún nam nuddfræðin segist hún hafa verið í fyrsta árganginum sem Nuddskóli Íslands byrjaði með á Akureyri haustið 2006. “Ég útskrifaðist sem heilsunuddari frá FÁ vorið 2009 en byrjaði að nudda sem nemi árið 2007 og hef því verið í bransanum í tólf ár. Það er er frekar langur tími, þetta er viðkvæm starfstétt og auðvelt að gefast upp.
Ég er líka læknaritari eins og áður hefur komið fram og hef unnið við það síðan um aldamótin síðustu á okkar góðu stofnun HSN. Ég hef einu sinni áður tekið mér frí í tæp þrjú ár en þá reyndi ég fyrir mér í eigin rekstri. Núna segist ég vera í fríi frá læknaritaranum því ég get vel hugsað mér að snúa aftur í það starf þegar ég eldist” segir Helga Björg sem er þó hvergi hætt að mennta sig því framundan hjá henni er að klára 270 klst. Yogakennaranám frá Yogavin en útskrift er áætluð þann 15. mars nk.
“Yogafræðin eru svo mögnuð, myndu vera skyldunám hjá börnum strax í grunnskóla ef ég fengi einhverju ráðið um það. Þetta er svo fallegur boðskapur og kærleikur að lifa eftir plús áhrifin sem yoga hefur á líkamann en þetta hefur verið mikil áskorun fyrir mig” sagði Helga Björg að lokum en bætti við brosandi að það væri komið á Things To Do listann að fara út í heim í nokkra mánuði eins og sumir og njóta lífsins, a.m.k prófa eitthvað nýtt.
Sjóböðin eru einstök og ásamt heilsunuddinu mynda þau gott par segir Helga Björg.