Borað í landi Húsavíkur

Undanfarna daga hafa staðið yfir boranir í landi Húsavíkur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar orkufreks iðnaðar á Bakka. Bæði verkfræðistofan Efla og

Borað í landi Húsavíkur
Almennt - - Lestrar 460

Borað í þokunni
Borað í þokunni

Undanfarna daga hafa staðið yfir boranir í landi Húsavíkur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar orkufreks iðnaðar á Bakka. Bæði verkfræðistofan Efla og Vegagerðin standa að þessum jarðfræðirannsóknum og er tilgangurinn að kanna undirlag fyrir annarsvegar verksmiðju þýska kísilmálmframleiðandans PCC svo og iðnaðarveg og göng sem tengja saman hafnarsvæðið og iðnaðarlóðina á Bakka.

Borunum á fyrirhugaðri lóð PCC er lokið í bili en sveitarfélagið Norðurþing á í samningaviðræðum við PCC. „Fyrirtækinu hefur ekki verið úthlutað lóð en samningar um lóð og hafnaraðstöðu ganga vel“, segir Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri hjá Norðurþingi. Hann segir viðræður einnig í gangi við fyrirtækið Thorsil um lóðar- og hafnarsamning.

Fulltrúar PCC voru staddir hér á Húsavík á dögunum og afhentu m.a. íþróttabúninga á alla yngri flokka Völsungs í knattspyrnu og von er á fulltrúum fyrirtækisins í lok ágúst til frekari viðræðna.

Vegagerð ríkisins stendur fyrir borunum vegna iðnaðarvegar og ganga undir Húsavíkurhöfða. Snæbjörn segir að boraðar verða tvær, þrjár holur í höfðann til viðbótar en fyrstu rannsóknir lofi góðu. Hann bætir við að gert er ráð fyrir að niðurstöður úr þessum jarðfræðirannsóknum liggi fyrir í september.

Snæbjörn Sigurðarson er verkefnisstjóri hjá Norðurþingi

Snæbjörn Sigurðarson er verkefnisstjóri hjá Norðurþingi

Fulltrúar PCC afhenda Völsungi búninga á yngriflokkastarf í knattspyrnu

Fulltrúar PCC afhenda Völsungi búninga á yngriflokkastarf í knattspyrnu 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744