Bókakynning á Húsavík á föstudagFréttatilkynning - - Lestrar 436
Föstudaginn 15. nóvember kl. 16:15 verður bókakynning í Bókaverslun Þórarins á Húsavík þar sem kynntar verða tvær norðlenskar bækur.
Annarsvegar smásagnasafn Vigfúsar B. Jónssonar á Laxamýri sem ber heitið Mannlífsmyndir. Hinsvegar bókin Krosshólshlátur en ritstjóri hennar er Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn í Svarfaðardal. Upplestur og kaffisopi, allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
„Það er einhver notalegur, mannlegur tónn, einhverskonar heiðríkja sem gengur eins og rauður þráður í gegnum þessar sögur,“ skrifaði Jóhannes Sigurjónsson ritstjóri Skarps um bók Vigfúsar á Laxamýri þegar bókin kom út nú í haust.
Krosshólshlátur í ritstjórn Hjörleifs er safn sagna og vísna frá gangamönnum á Sveinsstaðaafrétt. Hér er ferðinni ósvikin sveitamenning Svarfaðardals, óður til lífsins og sauðkindarinnar, sambland af afdalamennsku og heimsborgurum eins og þeir bestir gerast á Íslandi.
Útgefandi beggja bóka er Bókasmiðjan í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.