Baráttudagur gegn einelti

Við getum öll valið hvernig við hegðum okkur. Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti ákvað á sínum tíma að standa að sérstökum degi gegn einelti og hefur

Baráttudagur gegn einelti
Aðsent efni - - Lestrar 199

Hjálmar Bogi Hafliðason.
Hjálmar Bogi Hafliðason.

Við getum öll valið hvernig við hegðum okkur. Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti ákvað á sínum tíma að standa að sérstökum degi gegn einelti og hefur hann verið haldinn síðan 2011.

Fyrir aðeins tíu árum. Baráttan náði til allra í samfélaginu. Síðan 2017 hefur dagurinn verið helgaður baráttunni gegn einelti í skólum landsins. Rétt eins og fullorðna fólkið sé undanskilið.

- - -

Á þessum stutta tíma er búið að búa til aragrúa af greinargerðum, skrifa margar ritgerðir, hanna kennsluefni og birta tilvitnanir sem lið í baráttunni gegn einelti. Þessu samfélagsmeini. Einelti er merki um að við verðum og eigum að bæta menninguna. Það á sér margar birtingarmyndir, getur verið dulið og alls ekki augljóst. Með tilkomu samfélagsmiðla og nýrra leiða í samskiptum opnaðist nýr veruleiki þar sem ómenning getur þrifist.

- - -

Einelti þrífst í hópum. Þar sem fólk kemur saman. Bæði í raun og rafheimi. Áherslan hefur verið á þolendur eineltis. En það er mikilvægt að stækka sviðið enda þarf að rækta og bæta menninguna þannig að einelti eigi sér ekki stað. Mikilvægt er að breyta orðræðunni og taka upp orðræðu sem byggir á því að draga fram það jákvæða með því að tala um hvernig megi auka velferð fólks, bæta skólabrag og stofnanamenningu, virðingu og umhyggju en ekki tala eingöngu um aðgerðir gegn einelti, heldur aðgerðir sem stuðlað gætu að aukinni velferð og jafnrétti meðal fólks og aukinni vellíðan almennt.

- - -

Við getum valið að vera góð við aðra. Sjá til þess að allir séu með, hrósað, hvatt og hjálpað. Að velja að vera góð manneskja. Við getum líka valið að baktala, skilja útundan, meitt aðra. Hvort ætlum við að velja? Val okkar hefur áhrif á aðra. Alltaf. Þennan dag, baráttudag gegn einelti er dagur þar sem við eigum að leiða hugann að því hvernig manneskjur við viljum vera.

- - -

Við höfum beitt hugtakinu einelti yfir skilgreina og endurtekna hegðun. Þess vegna verður að skilja á milli samskiptavanda fólks og eineltis. Við þurfum að kenna fólki að leggja rækt við jákvæða sjálfsmynd, uppbyggilegt sjálfsmat og sjálfsvirðingu. Það er ótrúlega skemmtilegt í mannlegum samskiptum að sjá hvað við erum ólík. Það er frábært. Fögnum fjölbreytninni.

- - -

Það er þýðingarmikið að finna að aðrir, jafnvel þeir sem maður átti síst von á, hafa sínar áhyggjur og ótta, t.d. álit annarra á sér. Við eigum að geta hlegið að veikleikum okkar og til að svo megi vera þarf að skapa jákvæðan jarðveg og traust umhverfi með samkomulagi allra. Neikvæðni væri sett á bannlista. Við eigum að einsetja okkur að læra hvert af öðru, styðja hvert annað, gagnrýna á uppbyggilegan hátt.

- - -

Þannig verður sjálfsmynd okkar til, í umhverfi með öðrum. Tileinkum okkur jákvæð viðhorf og það sem gagnlegt er. Verum fyrirmyndir.

Hjálmar Bogi


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744