Árbók Þingeyinga-Afmælisdagskrá

ÁRBÓK ÞINGEYINGA  AFMÆLISDAGSKRÁ 4. NÓVEMBER 2008 KL. 17:00 -18:30   Í SAFNAHÚSINU Á HÚSAVÍK Í ár er Árbók Þingeyinga 50 ára og er því tilefni til að efna

Árbók Þingeyinga-Afmælisdagskrá
Aðsent efni - - Lestrar 340

ÁRBÓK ÞINGEYINGA

 AFMÆLISDAGSKRÁ

4. NÓVEMBER 2008 KL. 17:00 -18:30

 

Í SAFNAHÚSINU Á HÚSAVÍK

Í ár er Árbók Þingeyinga 50 ára og er því tilefni til að efna til veislu!Árbók Þingeyinga er útbreiddasta átthagarit á Íslandi og hefur verið gefið út á hverju ári síðan 1958. Í ritinu eru birtar fróðlegar og skemmtilegar greinar af margvíslegum toga, sögur, ljóð og annálar. Markmið Árbókarinnar er að fræða og skemmta ungum sem öldnum.

DAGSKRÁ

 

Í ANDDYRI SAFNAHÚSSINS– HARMONIKKUFÉLAG ÞINGEYINGA

GESTIR BOÐNIR VELKOMNIR– BJÖRN INGIMARSSON SVEITARSTJÓRI OG FORMAÐUR STJÓRNAR MENNINGARMIÐSTÖÐVAR ÞINGEYINGA

 

 ÁRBÓK ÞINGEYINGA 50 ÁRA– ÁVÖRP, STEINGRÍMUR J. SIGFÚSSON ALÞINGISMAÐUR OG SIGURJÓN JÓHANNESSON RITSTJÓRI ÁRBÓKARINNAR FLYTJA TÖLU

ÚTGÁFA ÁRBÓKARINNAR 2007– BERGUR ELÍAS ÁGÚSTSSON SVEITARSTJÓRI TEKUR VIÐ AFMÆLISEINTAKINU

 

TIL LESENDA– UPPLESTUR ÚR ÁRBÓK ÞINGEYINGA FRÁ 1958

 

 

RITSTJÓRA OG RITSTJÓRNARSKIPTI ÁRBÓKARINNAR TILKYNNT– BJÖRN INGIMARSSON

 

OPNUN VEFJAR ÁRBÓKAR ÞINGEYINGA– MARGRÉT HALLGRÍMSDÓTTIR ÞJÓÐMINJAVÖRÐUR ÍSLANDS OPNAR VEFINN

 

KAFFIVEITINGAR Í BOÐI ÁRBÓKAR ÞINGEYINGA.

 

SLEIKJÓ FYRIR BÖRNIN!

 

 

Frekari upplýsingar gefur Sigurjón Baldur Hafsteinsson í síma 464 1860 eða í síma 848 8177.

 

Í fyrsta hefti Árbókarinnar árið 1958 skrifar ritstjóri hennar, Bjartmar Guðmundsson, bréf til lesenda.  Bréfið er ákall til Þingeyinga – heima og heiman – um að styðja við bakið á útgáfunni.

Bréfið hljóðar svo:

„Á sýslufundi í Húsavík 9.-13. apríl 1957 hreyfði Jóhann Skaptason sýslumaður því, að héraðið, þ.e. Þingeyjarsýslur og Húsavíkurkaupstaður, gerði tilraun með útgáfu ársrits, er snerti þessi byggðarlög sérstaklega. Hugmynd þessi fékk þá þegar góðar undirtektir. Og síðar flutti sýslumaður þetta sama mál við bæjarstjórn Húsavíkur og sýslunefnd Norður-Þingeyjarsýslu. Er skemmst frá að segja, að allir þessir aðilar ákváðu svo á fulltrúafundi í Húsavík vorið 1958 að hefja útgáfu ársrits, er síðar hlaut nafnið Árbók Þingeyinga.

[...]

Um tilgang og verkefni ritsins er þetta að segja: Því er ætlað að verða tengiband héraðsbúa heima fyrir og einnig og engu síður hinna, sem ekki eru lengur heima nema í huga sínum og endurminningum. Með tilstuðlan fréttaþátta úr öllum byggðarlögum geti menn vitað meira hver um annan en ella. Að vita er að skilja. Og að skilja er að fyrirgefa, segja Frakklendingar og gæti það átt víðar við. Þekking og réttur skilningur eyðir kala og ríg og er mikil hjálp til vinsamlegra samskipta, samstöðu og samhjálpar. Óþekking og óskilningur reisir aftur á móti úfa og veldur ófarnaði í flestum greinum.

Þá er riti þessu ætlað að flytja fróðleiksmola, sem eru héraðsbundnir við menn og málefni og félagslegar hreyfingar. Það sem var, það sem er og það sem þarf að koma er allt hvað öðru samtengt og tvinnað. Og hverjum og einum á að vera hollt að vita eitthvað um uppruna sinn og gá til rótar sinnar um leið og hugurinn reikar frá deginum í dag til þess, sem er að koma.

“Þess sem var og verða mun við erum milli staddir” sagði Indriði á Fjalli og verður varla betur að orði komizt um þetta. Þá gæti Árbók þessi einnig orðið umræðuvettvangur fyrir þá, sem séð geta til átta á athafnasviðinu og komið þar auga á stóra hluti, sem gera má eða þarf. Einnig fyrir þá sem eitthvað vildu segja öðrum til viðvörunar.

Leitazt verður við að flytja gamanspjall og fyndni, samt án allra mannskemmda. [...] Frásögur um atorku, afrek, óvenjulega atburði eða dularfulla eiga það líka sannarlega skilið að þeim sé til haga haldið.

Sú var einnig tíð að sagt var að Þingeyingar kynnu að yrkja. Nú er talað um ættleraskap þeirra í því efni. Um það dæmi ég ekki. Þó er víst að enn yrkja þar margir menn og fleiri en flesta grunar, ekki sér til frægðar heldur heilsubótar og þjálfunar í málsmeðferð. Sumir yrkja jafnvel ágætlega eins og t.d. Egill Jónasson, sem ég hygg að hafi lengt líf margra manna með því að koma þeim til að hlæja að fyndi sinni í lausavísunum. Þó er þetta allt hér hjá okkur fyrir utan “atomið” svo ég viðhafi eitt það aumasta orð eða óorð, sem enn hefur heyrzt á Íslandi um það, sem skáld nota til að hylja með nekt sína eða vanmætti í listinni.

Margt mætti telja. En engu er bezt að lofa, því það gæti þá orðið upp í ermina. En úr engu verður neitt jafnan nema til komi stuðningur annarra. Þannig er hver öðrum háður í heimi hér. Svo hlýtur og hér að fara.

Árbókin þarfnast kaupenda og hins “þétta leirs” eins og meistari Jón orðar það. Hún þarfnast og uppörvunar engu að síður. Í þessu tvennu liggja leyniþræðir geisimáttugir.

Í trausti þess að í Þingeyjarþingi finnist lífsnæring þráðum þeim báðum stígur hún frá stokki”

Svo mörg voru þau orð hjá Bjartmari.

+++

 

Framtíðin!

 

Í sömu Árbók hafði Jóhann Skaptason þáverandi sýslumaður og einn helsti hvatamaður að útgáfunni þetta að segja við Þingeyinga: „Báðar Þingeyjarsýslur og Húsavíkurkaupstaður hefja í sameiningu útgáfu þessa tímarits. Margir Þingeyingar eru vel ritfærir og hafa fjölþætt áhugamál. Vissan um þetta hefur gefið stofnendunum kjark til að hleypa því af stokkunum. Því er ætlað að flytja efni til fróðleiks, gagns og skemmtunar, og vonast er eftir, að það geti átt þátt í að auka framfarir og velmegun í héraðinu. Þess er vænzt, að Þingeyingar, heima og heimanfarnir, leggi því lið. Framtíð þess er ykkur falin, Þingeyingar. Hún veltur á því, að þið veitið ritinu góðar viðtökur og blásið í það lífsanda áhuga og vitsmuna.” Jóhann Skaptason í Árbók Þingeyinga 1958.

Nú hefur Árbókin stigið skrefið inní framtíðina og ætlar á þriðjudaginn að opna vef þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um útgáfuna, eldri árganga og gerast áskrifandi. Slóð Árbókarinnar verður: www.arbok.is

Árbók Þingeyinga hefur einnig opnað facebook-síðu og á nú yfir 400 vini sem eru ekki bundnir við norðausturland heldur dreifðir út um allan heim. Átthagaritið hefur því tekið sín fyrstu skref í að gerast alþjóðlegt!

 

+++

Árbók Þingeyinga 2007

 

 

Í Árbókinni 2007 er fjöldi áhugaverðra greina. M.a. Árbók Þingeyinga 50 ára, eftir Guðna Halldórsson þar sem m.a. er greint frá undirbúningi að útgáfunni sem hófst 1958. Einnig er í bókinni fróðleg grein eftir Jónas Kristjánsson; Garðar Svavarsson og Náttfari þar sem hann rekur sögu þeirra félaga sem fyrstir eru taldir hafa fundið Ísland. Þá má nefna grein eftir Baldur Jónsson um Látra-Björgu og grein Sigurjóns Jóhannessonar í tilefni 100 ára afmælis Húsavíkurkirkju o.fl.

Auk þess eru í bókinni fjöldi annara greina og frásagna ásamt ýmissa frétta úr héraði.

Þessum 50. árgangi árbókarinnar er ritstýrt af þeim Guðna Halldórssyni og Sigurjóni Jóhannessyni. Þeir félagar hafa ritstýrt árbókinni saman frá árinu 1994. Guðni og Sigurjón láta nú af störfum sem ritstjórar Árbókarinnar og við því starfi tekur Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Í ritnefnd þessarar Árbókar sátu:

   Brynjar Halldórsson, Gilhaga
   Tryggvi Jóhannsson, Húsavík
   Þórhallur Bragason, Landamótsseli

Útgefandi er Menningarmiðstöð Þingeyinga.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744