Afar mikilvægt að viljayfirlýsingin verði endurnýjuðAðsent efni - - Lestrar 337
Ályktun
-Viljayfirlýsing um álver verði endurnýjuð-
Framsýn- stéttarfélag telur afar mikilvægt að viljayfirlýsing um uppbyggingu álvers á Bakka verði endurnýjuð með það að markmiði að álver rísi sem fyrst á Norðurlandi. Þeirri óvissu sem ríkt hefur um framhald verkefnisins verður að ljúka.
Skilaboð stjórnvalda varðandi verkefnið verða að vera skýr þar sem yfirlýsingar ráðherra hafa verið misvísandi og skaðað mjög framvindu málsins. Þegar miklir fjármunir og búsetuskilyrði fólks eru í húfi er slíkt með öllu óásættanlegt.
Á þessum tímamótum verður Alcoa einnig að gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um það hvort þeir ætli sér að byggja upp orkufrekan iðnað á Bakka eða ekki. Þær miklu fjárfestingar sem heimamenn og samstarfsaðilar hafa ráðist í, varðandi öflun á orku til atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum, verða að fara skila tekjum til baka. Menn hafa einfaldlega ekki efni á því að bíða lengur.
Ljóst er að væntingar heimamanna til verkefnisins eru miklar og enn á ný, virðast gilda önnur sjónarmið hjá ráðamönnum þjóðarinnar varðandi uppbyggingu atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu en gilda eiga á landsbyggðinni. Slík atvinnustefna brýtur gegn öllum lögmálum um eðlilega og sanngjarna atvinnuuppbygginu í landinu. Atvinnuuppbyggingu sem byggir á skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda sem við búum yfir, þjóðinni allri til heilla.