Af hverju kjósið þið frjálslynda flokkinn.Aðsent efni - - Lestrar 338
Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður fyrir 10 árum síðan. Sérstaða hans, miðað við flokka sem stofnaðir voru á svipuðum tíma, að hann var ekki stofnaður á grunni annars flokks. Flokkurinn hefur verið langlífari á þingi en flest önnur framboð af sama tagi. Ekki hefur þó vantað upp á hrakspárnar fyrir hverjar einustu kosningar, þó alltaf hafi sannast að fólkið í landinu vilji halda rödd Frjálslynda flokksins lifandi inni á Alþingi.
Það er staðreynd að síðan flokkurinn var stofnaður höfum við Frjálslynd bent á mál sem betur mættu fara. Oftar en ekki hefur komið í ljós að um réttmæta gagnrýni var að ræða, þó að oft væri talað fyrir daufum eyrum. Sum málanna hafa fylgt okkur lengi, eins og breytingar á kvótakerfinu, á því máli var ekki mikill áhugi en nú virðist sem þeir flokkar sem frjálsir eru í sinni afstöðu hafi opnað augu sín fyrir breytingum. Þar má nefna frjálsar handfæraveiðar. Menn skulu þó alltaf vera á varðbergi gagnvart kosningaloforðum.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hefur ásamt fleirum lengi talað gegn verðtrygginguni. Á haustmánuðum 2006 lögðu Frjálslyndir fram þingsályktunartillögu um afnám verðtryggingar lána. Sú umræða einkenndist ekki af því að styttist í kosningar. Á fáum dögum nú í lok mars komu hins vegar tveir leiðtogar fram á sviðið, sem höfðu farið réttu megin fram úr því þeir vildu afnema verðtrygginguna.
Kjósendur verða að huga að því hverjir það eru sem virkilega vilja takast á við það starf sem nú bíður okkar. Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei farið offari í loforðaflaumi, við lofuðum til dæmis ekki ókeypis skólabókum fyrir síðustu kosningar. Við höfum verið nauðsynleg rödd innan veggja Alþingis, nauðsynleg viðbót við þreytta og svifaseina fjórflokka. Rödd fólksins í landinu, en ekki kvótakónga, útrásarvíkina eða annarra hagsmunahópa.
Eins og staðan í dag er ljóst að við verðum nánast að byrja aftur upp á nýtt. Það er alltaf erfitt að byrja, og á sumum sviðum virðast menn aldrei hafa byrjað í raun og veru. Nú verður aftur a móti ekki hjá því komist að byrja. Flokkar verða að fara að vinna saman að því að koma okkar góða landi á fætur aftur. Pólitískt argaþras og málþóf á ekki heima á Alþingi íslendinga. Við teljum að hin góðu gildi heiðarleika, dugnaðar og nægjusemi vera það sem við munum byggja okkar nýja samfélag upp á.
Þó við viljum samráð erum við í Frjálslynda flokknum vissulega með hugmyndir til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum landsins. Um miðjan mars lagði þingflokkur okkar fram frumvarp um frystingu verðtryggingarinnar í 5%, og að það sem umfram væri legðist inn á biðreikning í viðskiptabanka viðkomandi á nafni skuldarans. Unnið væri að því á næstu mánuðum að koma verðbólgunni niður fyrir 5% með lækkun stýrivaxta. Þegar það næðist væri hægt að fá eitthvert yfirlit yfir stöðuna eins og hún væri í raun og veru. Þá væri í framhaldinu hægt að taka ákvarðanir um hvort og þá hversu mikið þyrfti að afskrifa hjá hverjum og einum. Þessi aðgerð hefði hjálpað fólkinu í landinu strax, og þá þeim sem á hjálp þyrftu að halda. Hún hefði einnig gefið ráðamönnum okkar eitthvert ráðrúm. Því miður var þetta góða frumvarp látið daga uppi í viðskiptanefnd, og í staðinn komið fram með greiðsluaðlögun ríkisstjórnarinnar sem mun ekki hjálpa fólkinu í landinu fyrr en það er komið hnén.
Við viljum gera allt til að greiða götu sprota og allra þeirra einstaklinga sem ganga með góðar hugmyndir í maganum, en þurfa bara hjálp til að hrinda þeim í framkvæmd. Frjálslyndi flokkurinn hefur þar komið með lausn sem nýtist ekki aðeins sprotum heldur einnig fyrirtækjum sem starfa nú þegar en eru komin í fjárhagsvandræði. Gengur hún út á stofnun fjárfestingalánasjóð sem getur þjónað allri starfsemi. Þetta yrði í formi langtímalána á viðráðanlegum vöxtum. Ríkið mun þurfa að styðja við fyrirtækin í landinu og fara í mikinn kostnað við það. Með stofnun sjóðsins með aðkomu hagsmunaaðila er þó tryggt að mínusinn sem er á þjóðarbúskapnum yrði ekki stækkaður.
Breytingar á kvótakerfinu teljum við vera nauðsyn. Með innköllun aflaheimilda, sem margar hverjar eru veðsettar í bönkunum sem ríkið hefur eignast, gæti ríkið stuðlað að jákvæðri byggðaþróun eftir áralangt niðurrif. Afskrifa mætti eitthvað af skuldum útgerðanna , en þær eru margar hverjar gríðarlega skuldsettar og sumar halda í sér lífinu í dag með framleigu kvóta sem er en einn lösturinn á núverandi kerfi. Þær afskriftir yrðu settar í pott sem ríkið myndi síðan greiða af með þeim peningum sem kæmu til baka inn í ríkissjóð þegar að úthlutun væri hafin að nýju. Hér er vissulega aðeins hægt að teikna útlínur tillögunnar, en enginn getur með opnum huga neitað að þessar breytingar væru landinu til góða.
Það er staðreynd að niðurskurður mun verða nauðsynlegur, að segja eitthvað annað eru ómarktækar loftbólur sem standast ekki veruleikann. En það þarf að fara í allan niðurskurð að vel athuguðu máli. Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér af afli fyrir því að heilbrigðiskerfið verði síðast á dagskrá þegar að niðurskurði kemur. Það má byrja á hlutum eins og utanríkisþjónustu og varnarmálastofu en bíða eins lengi og hægt er með velferðarkerfi okkar.
Talað hefur verið um allt að 150 milljarða gat sem þurfi að stoppa í. Skattahækkanir munu ekki fylla í gatið nema að litlu leyti. Það er því ljóst að við verðum að framleiða upp í mestan hluta þessa gats. Þá vinnu verðum við að fara í með köldu höfði og leggja til hliðar persónuleg hugðarefni til dæmis í hvalveiðum. Staðreyndin er sú að við verðum að nýta allt það sem getur aukið við tekjur okkar í einhvern tíma. Til að mynda fengjust um 40 milljarðar ef að veitt yrði 100 þúsund tonnum meira af þorski.
Í byrjun árs voru háværar kröfur í samfélaginu um að breytingar yrðu í stjórnmálum landsins. Ein sú breyting var að nýtt og ferskt fólk kæmist í auknum mæli að í forrystusveitum flokkanna. Frjálslyndi flokkurinn í Norðausturkjördæmi lét ekki á sér standa og teflir fram nýju og fersku fólki í sinni framvarðarsveit. Ásta Hafberg er eina konan sem leiðir lista í kjördæminu og í öðru sæti er ungliði, Eiríkur Guðmundsson sem verður 24 ára á árinu og kemur með sýn þess hóps sem mun erfa landið inn í spilið. Að lokum má benda á að samkvæmt könnunum stefnir í að 9 kjördæmakjörnum þingmönnum í kjördæminu verði aðeins ein kona. Með því að setja X-ið við F stuðlið þið að því að þeim fjölgi.
XF fyrir fólkið í landinu.
Höfundar eru Ásta Hafberg og Eiríkur Guðmundsson en þau skipa 1. og 2. sætin á lista Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæmi