Að auka hæfni sína með því að opna heimili sitt fyrir annari menninguAðsent efni - - Lestrar 488
AFS skiptinemasamtökin á Íslandi eru alþjóðleg fræðslusamtök sem hafa sent íslensk ungmenni utan til skiptinemadvalar síðastliðin 52 ár. Samtökin hafa að sama skapi skapað vettvang fyrir erlenda skiptinema til að dvelja hérlendis í eitt ár í senn.
AFS á Íslandi eru rótgróin samtök sem byggja á reynslu og þekkingu. Samtökin eru ekki rekinn í hagnaðarskyni og er óháð trúfélögum, stjórnamálaflokkum eða öðrum hagsmunasamtökum.
AFS samtökin eru starfrækt í yfir 50 löndum víðsvegar um heiminn og bjóða upp á skiptinemadvöl í hálf ár eða heilt ár, sjálfboðaliðadvalir auk styttri sumardvala þar sem ýmislegt er í boði, eins og fornleifauppgröftur, tungumálanám, fótboltanámskeið og fleira. Vinsælasta dvölin sem AFS býður upp á er ársdvöl þar sem skiptineminn dvelur í ákveðnu landi, hjá þarlendri fjölskyldu og gengur í skóla.
Á hverju ári koma til landsins á vegum AFS á Íslandi 40-50 ungmenni á aldrinum 15-19 ára til ársdvalar.
Það er fyrst og fremst áhugi á Íslandi, íslenskri menningu og tungu sem fær þessi ungmenni til að yfirgefa heimahagana og kynna sér siði okkar og venjur. Markmið dvalarinnar er að kynnast landi og þjóð og hápunktinum er náð þegar þau hafa tileinkað sér menningu okkar og renna saman við innfædda.
Til þess að þessi gerjun geti átt sér stað ákveða jafnmargar fjölskyldur á hverju ári að verða fósturfjölskyldur. Þessar fjölskyldur taka erlenda nemann inn á heimili sitt og gera skiptinemann að fjölskyldumeðlim í hálft til eitt ár.
AFS sér um flest hagnýt mál sem viðkoma skiptinemanum sem felur til dæmis í sér að útvega honum vegabréfsáritun, skólavist og skólabækur. Það er aftur á móti fósturfjölskyldunnar að gefa hús- og hjartrými og smám saman verður skiptineminn hluti af fjölskyldunni og tekur þátt í daglega lífi hennar. Að sjálfsögðu sér skiptineminn sjálfur um að útvega sér vasapening þannig að hann er aldrei fjárhagslegur baggi á fjölskyldunni.
Í lok ágúst koma til dvalar á Íslandi 41 ungmenni frá um 30 þjóðlöndum og er AFS á Íslandi að leita að góðum fjölskyldum sem eru tilbúin til þess að taka þátt í því ævintýri sem felur í sér að opna heimili sitt fyrir skiptinema. Rannsóknir hérlendis sem erlendis hafa sýnt fram á til margs er að vinna með því að hýsa erlendan skiptinema. Til dæmis eykst tungumálaþekking, samskiptahæfni og víðsýni, Fósturfjölskyldan hefur tök á því að læra nýtt tungumál og kynnast menningu annars lands um leið og hún opnar dyr að íslensku samfélagi. Oft hafa myndast sterk tengsl milli fósturfjölskyldunnar og skiptinemans sem hafa leitt af sér áralanga vináttu fólks og heimsóknir á milli heimsálfa. Ekki síður er sá möguleika að fjölskyldur geti lært meira um eigin heimahaga enda er mikill sannleikur í orðatiltækinu glöggt er gests auga.
Það er vissulega gefandi að upplifa þá reynslu sem byggir og mótar einstaklinga út frá nýjum gildum og getur skipt sköpum í lífi fósturfjölskyldna og skiptinemanna.
Fjölmargar fjölskyldur hafa í gegnum tíðina fengið nema inn á heimili sitt og sumar ár eftir ár.
AFS á Íslandi óskar eftir að heyra í öllum þeim fjölskyldum sem hafa áhuga á að víkka sjónadeildarhringinn og eignast nýjan fjölskyldumeðlim. Skiptinemarnir okkar eru frá flestum heimsálfum, tala fjölmörg tungumál, hafa mismunandi trúarskoðanir en hafa það sameiginlegt að hafa áhuga á að kynnast Íslandi og íslendingum. Að fá erlendan nema inn í fjölskyldu sínu er upphaf gefandi lífsreynslu og ævilangri vináttu.
Grein eftir Eyrúnu Eyþórsdóttur, framkvæmdarstjóra AFS á Íslandi.