Á leið umhverfis Ísland á kayakAlmennt - - Lestrar 296
Kayakræðarinn Gísli Friðgeirsson er nú staddur hér í bæ en hann hóf ferð sína umhverfis Ísland þann 1. júní sl. þegar hann lagði upp í ferðina frá Geldinganesi. Takmark Gísla er að róa einn síns liðs á kayak umhverfis landið, fyrstur íslendinga.
Gísli hvíldist í Hvalvatnsfirði í gær og lagði upp þaðan kl. 16:30 áleiðis til Húsavíkur. Hann tók stefnuna á Flatey þar sem hann tók síðan land. Hann sagðist hafa átt þar góða viðdvöl og þegið kaffi hjá mæðgum sem þar dvöldu.
Síðan lá leið Gísla inn með Víknafjöllum allt suður í Naustavík þar sem hann hafði nokkra viðdvöl áður en hann tók stefnuna á Húsavík. Hann kom að landi um kl. 6 í morgun eftir róðurinn yfir flóann og aðspurður um hvort hann hafi orðið var við hvali sagðist hann hafa séð háhyrninga.
Gísli ætlaði að taka sér hvíldarpásu á Húsavík í dag og ekki ákveðinn hvort hann legði í hann í kvöld eða fyrramálið. Allt frá því hann lagði upp frá Asparvík á Ströndum upp úr miðnætti þann 27. júní hafa dag- og næturleiðir hans verið mjög langar og hvíldarstundir fáar. Veðrið hefur verið honum hagstætt og þá freistast hann til að róa langar leiðir í einu og því kærkomið að fá smá frí frá róðrinum auk þess sem hann þurfti að útrétta smávegis í bænum.
Hægt er að fylgjast með ferðum Gísla hér