Baron salat Olgu

g skellti mr borgarfer til Reykjavkur um helgina me nnu Hebu systur og Gunnu vinkonu minni og eftir essa fer er eitt sem g bara ver a f a

Baron salat Olgu
Stra & sntt slunni - Hafr Hreiarsson - Lestrar 741 - Athugasemdir (0)

arna er g a bar-dsa  Barcelona
arna er g a bar-dsa Barcelona
Ég skellti mér í borgarferð til Reykjavíkur um helgina með Önnu Hebu systur og Gunnu vinkonu minni og eftir þessa ferð er eitt sem ég bara verð að fá að deila með ykkur – já eða eiginlega tvennt.


Það fyrra er veitingastaðurinn í kjallaranum á Ostabúðinni á Skólavörðustíg – alveg frábær staður og mæli ég svo sannarlega með honum við ykkur sem eigið leið um borgina eða búið þarna. Það eru ekki mörg borð þarna þannig að það er kannski betra að vera á undan hádegisösinni en við komum á slaginu tólf og þá var eitt borð akkúrat að losna þannig að við vorum mjög heppnar – og mjög glaðar.

Þetta er allt mjög einfalt í sniðum hjá þeim og ég held að ég muni matseðilinn hjá þeim en hann hékk bara uppi á vegg og leit svona út að mig minnir; súpa dagsins, fiskisúpa, fiskur dagsins, salat með heitreyktri gæsabringu og brúskettur – ég held að ég sé ekki að gleyma neinu. Ég fíla mjög svona einfalda staði því þá er oftast þjónustan frábær, hráefnið eins ferskt og hægt er og bara allt gengur einhvernveginn upp og maður verður glaður að hafa valið akkúrat þennan stað en ekki einhvern annan. Það sem var líka svo frábært við seðilinn hjá þeim var að maður gat valið um hálfan eða heilan skammt af öllu – gaman þegar manni langar í súpu á undan til dæmis eða bara að prófa sem mest. Svo að ég tali nú ekki um að verðið var mjög viðráðanlegt.

Við vorum fjórar gellurnar sem hittumst þarna í hádeginu og því miður var ég nú ekkert að hugsa um að ég myndi kannski skrifa um þetta síðar meir því annars hefði ég reynt að velja eitthvað aðeins fjölbreyttara. Við vorum nefnilega þrjár sem fengum okkur fisk dagsins og ein sem fékk sér salatið. Fiskurinn var þorskur í rauðri chili og kóríander sósu með baunafylltri vefju ofan á og hann var í einu orði bara gjörsamlega fullkominn. Ég hef unnið við að verka þorsk og er ekkert æst í að borða hann alltaf en þessi var bara næstum því skötuselur held ég, agalega mjúkur og góður, alveg meiriháttar. Gunna fékk sér gæsabringusalatið og það var víst frábært en ég var svo niðursokkin í þorskinn minn að ég steingleymdi að fá að smakka. Við vorum sem sagt allar hæstánægðar með matinn okkar og þjónustuna og ég bara varð að fá að deila þessari reynslu minni; finnst fátt skemmtilegra en að finna nýja og flotta veitingastaði.

Það er alls ekki síðra að skoða sig um uppi í Ostabúðinni sjálfri og hefði ég getað verslað þar fyrir tugi þúsunda ... ef ég væri ekki bara svona dugleg að hemja mig! En ég verslaði nú samt aðeins og verð að mæla með því öllu líka. Ég keypti meðal annars ost sem heitir Primadonna og er í einu orði guðdómlegur – ætti að vera skyldueign á hverju heimili og smakkast alveg einstaklega vel með góðu rauðvíni t.d. Einnig keypti ég upprúllaða parmaskinku fyllta með geitaosti og eina flösku af hindberjabalsamik - namminamm.

Á heimasíðu Ostabúðarinnar er að finna nánari upplýsingar um opnunartíma ofl.

Á laugardagskvöldinu kom ein vinkona okkar Gunnu í heimsókn til okkar í hótelíbúðina þar sem við dvöldum á meðan borgardvölinni stóð. Við vorum svo heppnar að vera með smá eldhússaðstöðu þannig að það var auðvelt að gera vel við sig án þess að fara út að borða öllum stundum og eyða offjár.

Og þar skáldaði ég salat sem að ég er eiginlega bara mjög montin af og er viss um að ég á eftir að gera oft aftur í framtíðinni. Mig langaði nefnilega svo að nota parmageitaostarúlluna sem ég hafði keypti í Ostabúðinni daginn áður og bara skáldaði svona eitthvað út frá henni. Fyrst reif ég niður eitt lambhagasalat (til að drýgja dýrara kálið) og blandaði svo út í einum blönduðum klettasalatspoka ásamt stórum rauðlaukshringjum og konfekttómatsbátum. Sletti út á góðri ólífuolíu, grófmöluðu salti, svörtum pipar og ristuðum furuhnetum og blandaði öllu vel saman. Skammtaði svo á diskana og raðaði bitum af ostfylltu parmaskinkunni ofan á, nokkrum jarðarberjabitum og dropaði svo af glænýja hindberjabalsamikinu mínu yfir. Þetta sló í gegn!

Þetta var í raun aðalrétturinn hjá okkur því á undan bauð ég upp á niðurskornar vefjur með rjómaosti, hráskinku, rucola, rauðlauk og tómötum – en ég ætla að segja betur frá vefjum einhverntímann síðar þegar ég geri fleiri tegundir og get boðið upp á myndir. Einnig langar mig að benda á að þar sem ég bý ekki í göngufæri við Ostabúðina þá hef ég hugsað mér að prófa bara sjálf að búa til svona einhverskonar hráskinkurúllu með t.d. rjómaosti næst þegar ég geri þetta salat – þannig að þið getið bara prófað ykkur áfram ef ykkur langar til, engin nauðsyn að hafa þetta akkúrat alveg eins.

Baron salat Olgu
f. 4 í forrétt – spurning um að tvöfalda bara magnið ef þið viljið hafa þetta í aðalrétt – eða hafa fullt af góðu brauði með.

1 lambhagasalat (í potti – ódýrast og best)
1 poki af klettasalati með einhverjum blönduðum laufum út í
1 rauðlaukur – skorinn niður í hringi
½ box konfekttómatar
½ poki furuhnetur
Salt og pipar - grófmalað
Ólífuolía (ég nota alltaf extra virgin – en það er smekksatriði)
Hindberjabalsamik (má líka alveg nota annars konar)
Nokkur jarðarber (ég ætlaði að hafa peru en ég gruna manninn sem var á undan mér í Bónus um að hafa nappað henni – sel það þó ekki dýrara en ég kaupi það)

Upprúlluð parmaskinka fyllt með mjúkum geitaosti a la Ostabúðin

Við drottningarnar drukkum með þessu cava (freyðivín frá Spáni) en ég bara man ekkert hvað það hét en einnig er mjög gott að hafa eitthvað gott hvítvín – þið bara biðjið Bötta um ráðleggingar. 

Mér þykir mjög leiðinlegt að geta ekki sett inn neinar myndir með í þetta skiptið – það var bara alltof gaman hjá mér til þess að muna eftir að taka upp vélina – bæti það vonandi upp seinna!

Kveðja,
Olga Hrund


  • Herna

640.is | byrgarmaur Hafr Hreiarsson | vefstjori@640.is | Smi: 895-6744