Treystum byggðina

Ég var spurð að því síðla vetrar hvað það væri sem okkur vantaði helst í Kelduhverfi og sveitunum í kring. Fólk, svaraði ég, okkur vantar fólk og

Treystum byggðina
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 481

Hrund Ásgeirsdóttir, 2. sæti hjá Framsókn
Hrund Ásgeirsdóttir, 2. sæti hjá Framsókn

Ég var spurð að því síðla vetrar hvað það væri sem okkur vantaði helst í Kelduhverfi og sveitunum í kring. Fólk, svaraði ég, okkur vantar fólk og fjölbreytt atvinnutækifæri. Við verðum að gera samfélagið okkar að þeim stað að fjölskyldur geti hugsað sér að setjast hér að og hafi þannig aðgang að húsnæði og atvinnu við hæfi.

Fyrir mér snúast kosningarnar um að treysta byggðina, þá er ég að tala um allt svæðið því við erum öll hvert öðru háð. Við erum í varnarbaráttu búsetulega séð en það er gott að búa í Norðurþingi og hérna vil ég allra helst vera áfram en það er þá í okkar eigin höndum hvernig við högum málum. Mér finnst brýnt að við sameinum betur þéttbýli og dreifbýli og munum það að blómlegar sveitir sem byggja á styrkum stoðum eru Húsavík afar mikilvægar. Við verðum öll að kynna okkur vel hvernig málum er háttað á hverju svæði fyrir sig. Sjálf er ég búin að fá heilmikla kynningu á Húsavík og skoða þá staði sem eru í umræðunni að þurfi að byggja upp eða bæta. Möguleikarnir eru margir og við verðum að nýta okkur þá.

Við hjá Framsókn og félagshyggjufólki höfum haldið íbúafundi í öllu sveitarfélaginu; í Reykjahverfi, Kelduhverfi, Kópaskeri og á Raufarhöfn. Það er nauðsynlegt að spjalla við fólkið sem býr í sveitarfélaginu öllu, heyra hvað brennur helst á íbúum og ánægjulegt að fá að heyra hversu mikill samhljómur er með því sem við höfum fram að færa í okkar stefnuskrá og því sem fólk setur á oddinn. Við verðum að nýta frumkvæði þeirra sem hafa eldmóðinn og styðja við framkvæmdir til uppbyggingar í Norðurþingi. Þá finnst mér einnig brýnt að kjörnir fulltrúar hafi það í huga að störf dreifist um sveitarfélagið, sé þess kostur.

Nú bjóða fimm listar fram í Norðurþingi. Á öllum þessum listum eru Húsvíkingar í þremur efstu sætum, að undanskildum Framsókn og félagshyggjufólki. Þar sýndu Framsóknarmenn áræðni þegar þeir ákváðu að tefla konu úr dreifbýlinu fram í annað sætið. Ég er bæði stolt og ánægð með að fá að tilheyra þessum frambærilega og fjölbreytta hópi sem býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á mörgum sviðum.

Í grunninn viljum við öll það sama og verðum að leggja okkar af mörkum í þágu samfélagsins. Vinna saman að þessum verkefnum og muna það að hver og einn skiptir gríðarlega miklu máli. Þau eru fjölþætt og krefjandi verkefnin sem bíða nýrrar sveitarstjórnar og vona ég að við fáum umboð frá ykkur kæru kjósendur til að takast á við þau. Ég býð fram krafta mína og þekkingu og mun leggja mitt af mörkum, fái ég brautargengi ásamt félögum mínum til að sækja fram.

Hrund Ásgeirsdóttir

skipar 2. sæti B lista

Framsóknar og félagshyggjufólks


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744