Sjómennskan (í Norðurþingi) er ekkert grín!

Sjávarútvegur hefur frá örófi alda verið ein mikilvægasta stoð íslensks samfélags, og urðu til sjávarþorp vítt og breitt um landið.

Sjómennskan (í Norðurþingi) er ekkert grín!
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 638

Elís Orri Guðbjartsson.
Elís Orri Guðbjartsson.

Sjávarútvegur hefur frá örófi alda verið ein mikilvægasta stoð íslensks samfélags, og urðu til sjávarþorp vítt og breitt um landið. 

Segja má að hetjur hafsins hafi byggt hér upp grunnstoðir samfélagsins, því án þeirra er erfitt að sjá fyrir sér hvernig þjóðfélagið hefði getað vaxið og dafnað. 

Stærstu byggðakjarnarnir í Norðurþingi hringsnérust allir í kringum sjávarútveg. Í dag er öldin þó önnur, og virðist allt gert til að koma í veg fyrir að sjómenn haldi á miðin. 

Óhóflegar álögur við hafnir Norðurþings

Hafnir Norðurþings eru sér á báti hvað gjaldtöku varðar. Hafnirnar eru ekki aðeins dýrustu hafnirnar á landsvísu, heldur þær langdýrustu. 

Sé miðað við að 14 tonna bátur, undir 12 metrum á lengd fari í átta róðra í einum mánuði og borgi þar til gerð gjöld til hafnarinnar er rukkað 36% meira í Norðurþingi en við næstdýrustu höfn landsins, í Sandgerði. Í Dalvíkurbyggð myndi sami sjómaður borga 221% minna fyrir nákvæmlega sömu þjónustu! Og eigum við þá eftir að taka aflagjöldin með í reikningsdæmið, sem eru hér í hámarki!

Hinn almenni sjómaður er því svo sannarlega látinn borga brúsann, og það margoft í samanburði við kollega hans annars staðar á landinu! Því skal engan undra að sjómennskan hér sé að lognast út af.

Rúmlega 300 tonn ódýrari en tæplega 100 tonn á Húsavík

Það er skemmst frá því að segja að nýtt og glæsilegt skip í flota okkar Íslendinga sóttist eftir viðskiptum á Húsavík fyrir skömmu síðan. Að einni viku lokinni brást eigandi skipsins ókvæða við þegar reikningurinn blasti við honum. Hér hafði hann landað tæpum 100 tonnum af afla og ákvað að láta þar við sitja, enda gjöldin gríðarleg. Sigldi hann vestur hið snarasta þar sem hann landaði rúmlega 300 tonnum og greiddi mun lægri þjónustugjöld fyrir en hann hafði greitt fyrir tæplega 100 tonn á Húsavík!

Fyrr má nú rota en dauðrota

Það er því alveg deginum ljósara að gjaldtaka í höfnum Norðurþings knésetur þá sem stunda vilja hér veiðar og byggja upp rekstur. Við erum ekki að tala um nokkrar krónur eða aura, heldur munar 36% á höfnum Norðurþings og næstdýrustu höfn landsins. Fyrr má nú aldeilis rota en dauðrota!

Vilja smábátastarfsemina burt af hafnarsvæðinu 

Undanfarna áratugi hafa eigendur útgerða haft svæði til afnota skammt frá höfninni fyrir gámana sína, þar sem veiðarfæri og annar útbúnaður hefur verið geymdur. Nú blasir það við að allir geymslugámar skulu í burtu sem lengst suður fyrir bæinn, þar sem nánast vonlaust er fyrir venjulega smábátasjómenn að sækja sinn útbúnað nema með tilheyrandi margföldum kostnaði. Þetta er óboðlegt með öllu. Hafnsækin starfsemi smábátasjómanna á ekki heima suður í gryfju í Haukamýri, svo mikið er víst.

Gjaldskrá hafna Norðurþings er einfaldlega alltof há

Það er ástæða fyrir því að það er nánast engin útgerð er eftir lifandi í sveitarfélaginu. Það er löngu kominn tími til að efla smábátasjómenn og þá sem stunda vilja hér veiðar með lækkun hafnargjalda. Gjaldskránni þarf að breyta, og það strax!

Elís Orri Guðbjartsson skipar 4. sæti E-Lista Samfélagsins í komandi sveitastjórnarkosningum.


 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744