Konur eru konum bestar

Ein af ellefu. Á V-lista Vinstri grænna og óháðra eru 11 konur og 7 karlar. 4 efstu sætin skipa 3 konur.

Konur eru konum bestar
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 302

Aldey Traustadóttir.
Aldey Traustadóttir.

Ein af ellefu

Á V-lista Vinstri grænna og óháðra eru 11 konur og 7 karlar. 4 efstu sætin skipa 3 konur. Þetta er einstakt á meðal framboða til sveitarstjórnakosninga þetta árið og tel ég það senda mjög mikilvægan tón um breytingar til hins betra.

Ég heiti Aldey Traustadóttir og ég skipa 9. sæti á V-listanum. Ég er móðir, stjúpmóðir, hjúkrunarfræðingur, femínisti og svo margt fleira. 

Þegar ég var barn upplifði ég það, eins og svo margar aðrar stelpur, að það var gerð ákveðin krafa á mig, krafa um að vera þæg, góð og hafa hljótt því ég væri jú stelpa. Allt of oft var verið að segja mér að taka minna pláss og að ég gæti ekki hitt og þetta vegna míns kyns. Eftir því sem ég verð eldri sé ég betur og betur hvað þetta eru rosalega röng skilaboð. Stelpur og konur þurfa tækifæri til að taka meira pláss, pláss sem við eigum rétt á. Við viljum að það sé hlustað og tekið mark á okkur. Hvorugt kynið á meiri rétt á einu né neinu, við þurfum að vera saman til að láta samfélagið ganga sem best fyrir alla.

Máttur kvenna

Konur eru konum bestar er frasi sem ætti að heyrast oftar og hærra. Sagan hefur sýnt að þegar konur taka saman höndum verður til ótrúlegur kraftur. Staðan sem hefur náðst á Íslandi þegar kemur að jafnréttismálum er ekki stjórnmálamönnum að þakka heldur konum sem stóðu saman og ákváðu að þær ættu meira skilið. Í gegnum tíðina hafa konur myndað formleg og óformleg samtök sem hafa skilað samfélaginu miklu. Sem dæmi má nefna Barnaspítala Hringsins, Hvítabandsspítala, Mæðrastyrksnefnd, Félag kvenna í atvinnurekstri, Félag kvenna í Tónlist (KÍTÓN), samtök eins og Stígamót og Kvennaathvarfið og svona mætti lengi telja. Kyn skiptir máli, femínismi skiptir máli.

Jöfn tækifæri

Það er mikilvægt að konur fái raunverulega jöfn tækifæri og karlar til að taka þátt í stjórnmálum. Í Norðurþingi, eins og svo mörgum öðrum sveitarfélögum, hefur til langs tíma verið allt of algengt að karlar sitji í valdahlutverkum í nefndum og ráðum. Karlar ræði við karla um hvernig sé best að stjórna. Forgangsröðun innan sveitarfélaga í verkefnum, þjónustu, fjárfestingum og framkvæmdum fer þannig alltof oft fram út frá karllægum sjónarhóli, og það þrátt fyrir viðleitni framboða til að stilla upp „fléttulistum“. Það gefur auga leið að jafnrétti næst ekki þegar svona er. Á fundi sem ég sat nýverið teygði sig karlmaður yfir mig til að spyrja annan karlmann sem sat hinumegin við mig spurningu sem ég gat full vel svarað. Ég bara fékk ekki raunverulegt tækifæri til þess. Það er alltof oft gengið yfir konur, gert ráð fyrir að við getum ekki, viljum ekki. Við höfum verið þaggaðar niður í allt of langan tíma. Við erum komnar með nóg af því, við viljum fá raunverulegt tækifæri til að taka þátt. Ekki bara á pappír heldur af karlmönnunum sem hafa stjórnað.

Við viljum samfélag þar sem ríkir jafnrétti, ekki einungis á milli karla og kvenna, heldur á milli allra. Öll eigum við sama rétt á að vera til og að fá sömu tækifæri. Við þurfum að tala saman af virðingu hvert fyrir öðru og skapa saman réttlátt kerfi og samfélag. Verum þakklát, ræðum saman og búum til betra samfélag.

Jafnréttisátak 2018

V-listi vill gera átak í jafnréttismálum. Breyta og bæta. Verða á komandi kjörtímabili í fararbroddi á landsvísu í jafnréttismálum. Með því að kjósa V-listann styður þú við þetta og stuðlar að auknu vægi kvenna í sveitarstjórnarmálunum. Það er orðið tímabært. Gefið okkur raunverulegt tækifæri á að láta í okkur heyra og gera betur fyrir alla. Konurnar ellefu á V-lista eru ekki til skrauts. Við erum hér til að hafa áhrif.  

Hverjum treystir þú?

Aldey Traustadóttir, 9. sæti V-lista VG og óháðra í Norðurþingi 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744