Jarðstrengslögn í einni línu hefur áhrif á aðra innan sama svæðis

Flutnings- og dreifikerfi raforku eru mikilvægur hluti af innviðum nútíma þjóðfélags.

Magni Þór Pálsson.
Magni Þór Pálsson.

Flutnings- og dreifikerfi raforku eru mikilvægur hluti af innviðum nútíma þjóðfélags. 

Til þess að flytja og dreifa raforkunni þarf raflínur. Þær eru annað hvort í lofti eða jörð. Jarðstrengur er þannig uppbyggður að hann framleiðir umtalsvert magn af svokölluðu launafli, 20 – 30 sinnum meira en loftlína með sambærilega afkastagetu.

Launafl er nauðsynlegt að vissu marki í raforkukerfum, til dæmis til þess að viðhalda spennugæðum, enda hefur það bein áhrif á spennuna. Það viðheldur segulsviði, sem er til dæmis nauðsynlegt í rafmótorum.

Launafl „tekur pláss“ í streng eða línu og hefur þar með áhrif á getuna til þess að flytja raunafl. Verði launaflið hins vegar of mikið, getur það farið að hafa neikvæð áhrif á kerfisreksturinn. Mikið launafl getur til dæmis haft þau áhrif að spenna í kerfinu verði of há og spennusveiflur verði of miklar. Þessi áhrif eru þó mjög háð styrk eða stífleika raforkukerfisins á hverjum stað.  Styrkurinn er metinn út frá svokölluðu skammhlaupsafli kerfisins á viðkomandi svæði.

Ólíkur styrkur kerfisins milli landsvæða er meginástæða þess að svigrúm til jarðstrengslagna er mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt er meira rými til þess heldur en þar sem styrkurinn er lítill. Einnig þarf að hafa það í huga að jarðstrengslagnir innan sama svæðis hafa innbyrðis áhrif. Enn fremur hafa jarðstrengslagnir í dreifikerfinu áhrif á mögulegar jarðstrengslengdir í yfirliggjandi flutningskerfi á sama landsvæði. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig í hina áttina. 

Við hjá Landsneti höfum lengi bent á það að af þessum sökum þurfi að meta jarðstrengslagnir með heildstæðum hætti, sbr. t.a.m.  í skýrslunni „Jarðstrengslengdir í meginflutningskerfinu - Mat á mögulegum jarðstrengslengdum í nýju 220 kV flutningskerfi á Norðurlandi – Kerfisgreining“, mars 2017. Skipulagsstofnun hefur tekið undir þetta með óyggjandi hætti í nýlegu áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum Kröflulínu 3. 

Það sem þetta þýðir á mannamáli er að jarðstrengslögn í einni línu hefur óhjákvæmilega áhrif til styttingar jarðstrengskafla í annarri línu innan sama svæðis. Sé tekið dæmi úr niðurstöðum ofangreindrar skýrslu, þá má gera ráð fyrir því að 12 km langur jarðstrengur í Hólasandslínu 3 stytti mögulegan jarðstrengskafla í Kröflulínu 3 í 10 – 12 km úr um það bil 15 km, sé hún skoðuð ein og sér.

Að sama skapi styttir hún mögulegan jarðstrengskafla í Blöndulínu 3 um 5 km ,úr 10km í 5km  Vegna stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í nálægð við flugvöll, þar sem sýnt er fram á að hún geti haft áhrif á flugöryggi, hefur sá kafli í Hólasandslínu 3 ,12 km,forgang á lagningu jarðstrengs ef horft er til þeirra þriggja kosta sem rætt er um hér að ofan, Kröflulínu 3, Blöndulínu 3 og Hólsandslínu 3.

Ítarlegri umfjöllun um jarðstrengi má finna á heimasíðu okkar hjá Landsneti https://www.landsnet.is þar sem einnig er finna umfjöllun og efni um Hólsandslínu 3, Kröflulínu 3 og Blöndulínu 3. Einnig hvet ég ykkur til að fylgjast með og taka þátt i umræðunni á samfélagsmiðlum Landsnets.

Magni Þór Pálsson.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744