Hvernig er staðan

Húsvíkingar ofl. gerðu sér miklar væntingar þegar nýtt Fosshótel var opnað á Húsavík fyrir tæpum tveimur árum, sérhannað sem ráðstefnuhótel með mörgum

Hvernig er staðan
Aðsent efni - - Lestrar 236

Hörður Jónasson
Hörður Jónasson

Húsvíkingar ofl. gerðu sér miklar væntingar þegar nýtt Fosshótel var opnað á Húsavík fyrir tæpum tveimur árum, sérhannað sem ráðstefnuhótel með mörgum litlum fundarsölum ásamt stórum sal, fullkomin tæknibúnaður, stór íþróttahöll í næsta húsi fyrir stóra ráðstefnu, allt til alls.

Staðan er sú að á hótelinu hafa verið haldnar 3 til 4 litlar ráðstefnur frá opnun. Nú liggur fyrir að vetraropnun borgar sig ekki, of fáar gistinætur og gæti komið til lokunar um einhvern tima yfir veturinn sem þýðir að störf þar eru ekki fýsilegur kostur fyrir heimafólk  vegna þess að þau eru ekki á heilsársgrundvelli. Fosshótel segir í dag að ekki komi til lokunar, vonum það besta. Flugfélagið Ernir er þessa dagana að fá tvær 32 sæta vélar það gæti opnað möguleika fyrir ferðaþjónustu á Húsavík, ekki síst fyrir ráðstefnuhótelið.

Í stærra samhengi:

Skoðum málið í stærra samhengi, stækkum svæðið, tölum um allt héraðið. Byrjum á hótelum í héraðinu, hér á svæðinu eru þó nokkur ný og fullkomin hótel, byrjum upptalningu: Nýtt Fosshótel á Húsavík, nýtt Fosshótel í Mývatnssveit, nýtt Icelandair hótel í Reynihlíð (júní) nýtt og stækkað Sel hótel, nýtt Hótel Laxá, nýtt Cape hótel á Húsavík, auk þess hótel á Narfastöðum, sumarhótel á Laugum og gott hótel í Skúlagarði. Auk þessara gistimöguleika eru gistihús (guesthouse) á öðrum hverjum bæ í héraðinu. Öll þessi hótel sem ég taldi upp eru í 30 til 40 mínútna aksturfjarlægð frá Húsavíkurflugvelli. Það má benda á að klukkustundarakstur er milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Ef þessi nýju hótel væru metin og sett í samanburð við aðrar stærðir þá gætu þau jafngilt 5 nýjum og fullkomnum skuttogurum. Varla mundi nokkur útgerðaraðili hafa þá bundna við bryggju í 6 mánuði á ári.! Það má segja að ekki nokkurt landssvæði  hafi jafnmörg ný og  falleg gæðahótel í jafn stuttum radíus frá flugvelli og náttúruperlum. Möguleikarnir eru því miklir.

Þröskuldar og tregðulögmál.

Svokölluð dreifing ferðafólks hefur ekki tekist eða réttara sagt lítið sem ekkert verið unnið í því. Þröskuldurinn er sá að innandsflug er of dýrt og menn eru að sætta sig við það, það má líka nefna það að innanlandsfug er ekki valkostur fyrir Íslendinga. Tregðulögmálið er að allir halda að þetta eigi bara að vera svona af því að það hefur alltaf verið svona. Fáir hugsa á heimsvísu (global) en staðreyndin er sú að heimurinn er stærri en svo að hann sé bara milli þeirra fjalla sem við sjáum er við stöndum í sömu sporum og lítum í kring um okkur.

Stærsti atvinnuvegurinn.

Ferðaþjónusta á heimsvísu er sá atvinnuvegur sem vex  mest og hraðast. Lönd á norðuhjara eru geysilega vinsæl og verða æ vinsælli meðal fólks í heitu löndunum. Brátt mun hefjast beint flug milli Íslands og Kína og er það Kinverskt ferðafólk sem á peninga og vill kaupa góða þjónustu. Talið er að tugir milljóna Kínverja komist upp í millistétt árlega, þeir munu ferðast til annarra land. . Einnig hafa Indverjar áhuga Íslandi, nú er beint flug milli Indlands og Íslands.  Beint flug til og frá tveimur fjölmennustu þjóðum heims ! ekki munu allir þessir farþegar gista í Reykjavík. Þar opnast möguleikar fyrir hótel úti á landi enÞá kemur enn og aftur að háu verði í innanlandsfluginu sem virðist stýra svokallaðri dreifingu.

Samkeppni við aðra landshluta.

Húsavík er að glata þeirri ímynd að vera „Höfuðstaður hvalaskoðunar á Íslandi“ þar verða menn að fara í naflaskoðun ef orðsporið á ekki að týnast í meðalmennsku. Í prósentum talið er mest fjölgun hvalakoðunarfarþega í Eyjafirði. Þessi ímyndarvandi kallar á markaðssetningu á netinu og þarf nafnið „Húsavík“ að poppa upp þegar leitað er á netinu.

Hversvegna er ég að skrifa um þessa hluti.

Jú hér er verk að vinna ef Húsavík og nágrenni, sýslan ætla að halda sínum hlut og gera betur í langstærsta atvinnuvegi á Íslandi svo greinin fái að vaxa og dafna  og veita heilsársstörf í héraði, Ekkert kemur af sjálfu sér þó Dettifoss fari ekki neitt þá gætu verið aðrir sem sýna ferðafólki hann, ekki þjónustuaðilar í héraði. Ég skrifa þetta líka til að vekja athygli á þessum glæsilegu hótelum hér í nágrenninu en virðast ekki hafa hlutverk sem skyldi, heimaaðilar, Húsavíkurstofa, Mývatnsstofa og viðkomandi  þurfa að beita sér. Norðuþing þarf að ráða sér markaðsstjóra með einhverjum hætti sem vinnur að þessum málum í samstarfi við ofangreinda. Varðandi Fosshótel Húsavík liggur beinast við skrifa þetta verkefnaleysi hjá hótelinu á markaðsstofu Fosshótela í Reykjavík, það er því verkefni að fá þá aðila að borðinu, einnig markaðsstjóra Flugfélagsins Ernis sem halda uppi áætlunarflugi til Húsavíkur og eru að eignast tvær nýjar flugvélar sem bera 32 farþega hvor, það ætti að gefa Fosshótel Húsavík meiri möguleika t.d. í ráðstefnugeiranum.

Ekki allir með á nótunum.

21. maí sl. annar í hvítasunnu kom hingað skemmtiferðaskip, Marco Polo með um 800 farþega, skipið var í höfn frá því snemma um morgunin til kl. 19.00 Um 250 farþegar nýttu sér að fara í skoðunarferðir um héraðið, aðrir fóru í hvalaskoðun, hópur fólks gekk um götur Húsavíkur og nýtti sér bryggjustrætó sem gekk milli Bökugarðs og miðbæjar. Það er samt eins og heimenn hafi ekki verið meðvitaðir um hvað um var að vera, nefni fyrst þá þjónustu sem var í boði sem höfðaði til farþeganna, Hvalasafnið var opið, þangað komu 270 manns, Kaðlin var opið og var þar töluverð umferð að sögn. Bakarí var opið, veitingastaðir og ísbúð opin. -  Könnunarsafnið var lokað, Safnahúsið var lokað, Bókabúðin var lokuð, veit ekki með kirkjuna. Hér um helgina var ferming og margir brottfluttir í bænum og athyglivert að Safnhúsið væri ekki opið því þar er nýbúið að opna merkilega ljósmyndasýningu. Það virðist vera sambandsleysi milli skipamiðlarans og hagsmunaðila á Húsavík, úr því þarf að bæta.

200 herbergja glæsihótel á Húsavíkurhöfða.

Mér líst vel á hugmynd Húsvíkingsins Kristjáns Eymundssonar um byggingu glæsihótels á Húsavíkurhöfða. Kristján hugsar á heimsvísu, við þurfum fleiri slíka.

Ég skora á nýja sveitarstjórn að koma að markaðsmálum í ferðaþjónustunni, (sem skapar mörg afleidd störf), Norðurþing þarf að ráð sér öflugan markaðsmann/konu með eldmóð fyrir verkefninu.

Gleðilegt sumar.

Hörður Jónasson frá Árholti.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744