Hátíðarræða forseta sveitarstjórnar Norðurþings á Þjóðhátíðardaginn

Örlygur Hnefill Örlygsson forseti sveitarstjórnar Norðurþings flutti eftirfarandi hátíðarræðu á hátíðarhöldum í tilefni þjóðhátíðardagsins í

Örlygur Hnefill Örlygsson.
Örlygur Hnefill Örlygsson.

Örlygur Hnefill Örlygsson forseti sveitarstjórnar Norðurþings flutti eftirfarandi hátíðarræðu á hátíðarhöldum í tilefni þjóðhátíðardagsins í Íþróttahöllinni á Húsavík:

Kæru hátíðargestir, í dag fögnum við þjóðhátíð og það vekur alltaf sérstaka tilfinningu í hjörtum. Við köstum af okkur ham kversdagsleikans og klæðumst okkar fínasta pússi. Börnin hafa beðið þessa dags spennt og nú er hann loksins kominn. Þau eldri hafa fengið fána og blöðrur og þau yngri í vögnunum sínum skynja að eitthvað sérstakt liggur í loftinu sem þau munu síðar skilja betur.

Og í dag er sérstaklega mikið tilefni til að fagna. Undir léttri þoku sem umvefur bæinn okkar eins og ullarslæða fögnum við nefnilega 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Og það er sama hvernig veðrið er, alltaf er dagurinn fallegur á Húsavík og sérstaklega á tímamótum sem þessum. Þjóðfélag okkar hefur tekið miklum breytingum á þessum 75 árum, frá því að vera bændasamfélag með vaxandi útgerð, yfir í það tæknivædda og vel menntaða samfélag sem við búum í nú.

Ég man vel þjóðhátíðardaga bernsku minnar hér á Húsavík - og raunar hefur ekki svo margt breyst á rúmum 20 árum. Skrúðganga, fánar og blöðrur og allir sungu hárri röstu Hæ hó og jibbí, jei, þetta er allt enn á sínum stað. En svo voru oft tónleikar um kvöldið: Sérstaklega eru mér minnisstæðir tónleikar við grunnskólann að kvöldi þjóðhátíðardags þar sem hljómsveitin Gloría lék af miklum móð á svölunum skólans og engu líkara en maður væri kominn á stórtónleika á Wembley Stadium.

Og enn er tónlistin í aðalhlutverki eins og þið munið heyra á eftir þegar hin magnaða hljómsveit Inflúúnt stígur hér á stokk og svo þau Ruth Ragnarsdóttir og Kristján Elinór Helgason. Við erum heppin að eiga jafn frambærilegt tónlistarfólk.

17. Júní er enn dagur hinna ungu, þeirra sem eiga framtíðina fyrir sér. Það var gaman að horfa á útsendingu af Alþingi í morgun þar sem unga fólkið okkar fékk orðið og ræddi m.a. um mikilvægar aðgerðir í umhverfis- og loftlagsmálum. En 17. Júní er líka dagur okkar sem eldri erum, til að horfa um öxl, vega og meta, og kanna hvaða lærdóm fortíðar við getum miðlað áfram til komandi kynslóða.

Þjóð sem gengur í gegnum framfaraskeið eins og Íslensk þjóð á að baki á 75 árum getur yfir mörgu glaðst. Öll þessi 75 ár hafa verið stöðugar tækniframfarir. Eins og mörg ykkar sem þekkið mig vita hef ég lengi haft dálæti á tunglinu. Og nú í sumar verður þess minnst víða um heim að 50 ár eru frá fyrstu skrefum okkar þar uppi. Í aðdraganda þeirra sögulegu skrefa voru tekin dýrmæt þekkingarskref hér í Þingeyjarsýslum þegar geimfararnir æfðu sig hér í bakgarði okkar fyrir þessar merku ferðir. Ég hef hitt marga af þeim sem fóru til tunglsins og hafa þeir sagt mér að það sem þeir lærðu í Þingeyjarsýslum hafi skipt sköpum í ferðum þeirra. Við eigum mörg og fjölbreytt tækifæri til verðmætasköpunar hér. Á mörgum sviðum. Hvort sem horft er til jarðhita, náttúrufegurðar, eða mannauðs. Við eigum líka inni tækifæri sem við höfum ekki uppgötvað enn, en næstu kynslóðir munu finna.

Og af því að ég nefni tunglið, þá langar mig að segja ykkur þetta. Sama hvar þið standið á jarðarkringlunni okkar þá sjáum við öll sama tunglið. Fjölskyldur og elskendur sem að skilja þúsundir kílómetra geta farið út í kvöldmyrkrið og litið upp og séð sama tunglið vaka yfir sér. Það tengir okkur öll. Heimsmynd okkar sem byggjum þessa jörð kann að vera ólík við fyrstu sín en þegar betur er að gáð er það sem tengir okkur, svo miklu fleira, en það sem skilur okkur að. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá hér í hópi okkar í dag fjölda fólks sem komið hefur um langan veg, en kallar í dag Húsavík og Norðurþing sína heimahöfn. Fólk sem sýnir okkur fjölbreytileika heimsins en er einnig ákaft í að kynnast og læra um þá mennungu og siði sem hér eiga rætur. Það er verðmætt að byggja samfélag sem fólk sækist í að verða hluti af.

Hér í Norðurþingi og Þingeyjarsýslum eru fjöldamörg tækifæri til að efla samfélagið, en það gerist ekki nema með samstilltu átaki og vilja alls samfélagsins. Við eigum tækifæri í orku svæðisins og erum þegar byrjuð að nýta hana. Við eigum tækifæri í náttúrunni sem dregur að fjölda fólks ár hvert, en mikivægt er að nálgast hana af virðingu. Við eigum tækifæri í sköpunnargleði og list fólksins okkar, listagyðjan er rík í okkur þingeyingum. Og við eigum tækifæri í þrótti og áræði heimafólks, sem hefur byggt hér upp ýmiskonar starfsemi, í ýmsum greinum. Á Húsavík er nærtækast að nefna hina miklu uppbyggingu í ferðaþjónustu. Komum skemmtiferðaskipa fjölgar ár frá ári og nú getum við skellt okkur í Sjóböðin, og allir okkar góðu gestir líka.

Sumarið 1995 komu um 2000 gestir til Húsavíkur til að fara í hvalasiglingar, en hefur sú tala nær fjörutíu-faldast á rúmum tveimur áratugum. Ég þori að fullyrða að ekkert samfélag í heiminum byggir afkomu sína að jafn stórum hluta á hvalamenningu og raunin er hér á Húsavík. Hér starfa 4 öflug hvalaskoðunarfyrirtæki, hvalasafn sem er á heimsvísu, auk þess sem hér er stundað öflugt fræðastarf í hvalarannsóknum. Skjálfandi gefur. Og talandi um Skjálfanda, Listahátíðin Skjálfandi sem byrjaði sem vettvangur þar sem listamenn komu víðsvegar að er nú orðinn einn öflugasti vettvangur heimalistar á landsvísu. Það býr margt í okkur Húsvíkingum og Þingeyingum.

Innviðir okkar er sterkir, en mikilvægt er að við séum meðvituð alltaf að ekkert er sjálfgefið. Við þurfum að vaka yfir stofnunum okkar, þau störf eru ekki sjálfgefin og geta glatast ef ekki er haldið um. Við þurfum að vera meðvituð um þjónustufyrirtæki í samfélagi okkar og beina til þeirra viðskiptum, því það er ekki sjálfgefið að þau verði hér á morgun.

Sveitarfélög hafa sameinast og hefur sýnt sig að saman stöndum við sterkari. Norðurþing er gott dæmi um það. Nýjustu fréttir úr nærsveitum okkar eru þær að Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur hafa hafið skoðun á sameiningu, og yrðu þá tvö stór sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, tengd öflugustu byggð landsbyggðanna með hinum nýju Vaðlaheiðargöngum.

Góðir gestir, njótum dagsins, njótum samverunnar, njótum sumarsins. Verum meðvituð um hvað við höfum og hvað við getum. Tækifærin og framtíðin er okkar.

Gleðilega hátíð.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744