Gamla myndin - Sjóminjasafnið fékk líkan af Hagbarði TH 1 að gjöf

Gamla myndin sem nú birtist var tekin í maímánuði 2002 þegar Sjóminjasafnið á Húsavík fékk líkan af Hagbarði TH 1 að gjöf.

Hagbarðsmenn við líkanið góða.
Hagbarðsmenn við líkanið góða.

Gamla myndin sem nú birtist var tekin í maímánuði 2002 þegar Sjóminjasafnið á Húsavík fékk líkan af Hagbarði TH 1 að gjöf.

Morgunblaðið birti eftirfarandi frétt af þessu:

Samvinnufélagi útgerðarmanna og sjómanna á Húsavík, sem stofnað var í árslok 1943, var slitið á dögunum og ákvað stjórn þess og skilanefnd að ánafna eignum þess til góðgerðarmála. Sjóminjasafnið á Húsavík, Björgunarsveitin Garðar og Hvammur, heimili aldraða á Húsavík, fengu eina milljón króna hver og Golfklúbbur Húsavíkur fjögur hundruð og sjötíu þúsund krónur.

Stjórnina og jafnframt skilanefndina skipuðu þeir Kristján Ásgeirsson og nafnarnir Hörður Arnórsson og Hörður Þórhallsson. Sjóminjasafnið fékk einnig að gjöf glæsilegt líkan af vélbátnum Hagbarði TH 1, smíðað af Grími Karlssyni skipstjóra í Njarðvík.

Hagbarður, eða Habbinn eins og hann var stundum kallaður, skipar stórann sess í útgerðarsögu Húsavíkur. Húsavíkurhreppur hafði forgöngu árið 1946 um kaup á bátnum sem verið var að smíða í Reykjavík og síðar sama ár var Útgerðarfélag Húsavíkur stofnað um útgerð bátsins. Hagbarður var gerður út fram yfir 1960 og var Þórarinn Vigfússon skipstjóri á honum allan tímann.

Fram kom í máli Kristjáns að breyting á bátaflota Húsvíkinga þróaðist þannig að bátar stækkuðu það mikið að kjaramál og aðrir þættir útgerðar færðust til Landssambands íslenskra útvegsmanna og leiðir þeirra og sjómanna skildu.

Félagið hafi því ekki starfað um langan tíma, eða allt frá árinu 1974, en það sá um samskipti útgerðarmanna og sjómanna á Húsavík út á við.

Það hafði með höndum m.a. umboðssölu á olíu, sá um kjaramál, fiskverðsmál og beitumál auk þess að vera með sjómannadaginn á Húsavík á sinni könnu.

Hagbarður

Nokkrir fyrrverandi skipverjar á Hagbarði TH 1 voru viðstaddir þegar líkanið af bátnum var afhent Sjóminjasafninu á Húsavík. 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744