Gamla myndin - Heiðraðir á þrjátíu ára afmæli Kiwanisklúbbsins Skjálfanda

Síðastliðinn mánudag voru 40 ár frá stofnun Kiwanisklúbbsins Skjálfanda og því upplagt að gamla myndin sem nú birtist sé tileinkuð því.

Kiwanismennirnir sem heiðraðir voru.
Kiwanismennirnir sem heiðraðir voru.

Síðastliðinn mánudag voru 40 ár frá stofnun Kiwanisklúbbsins Skjálfanda og því upplagt að gamla myndin sem nú birtist sé tileinkuð því.

Hún er reyndar ekki svo gömul því hún var tekin 27. mars 2004 á hátíðarfundi Kiwanisklúbbsins Skjálfanda í tilefni 30 ára afmæli klúbbsins.

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar eða þann 1. apríl:

Það er hverju samfélagi mikilvægt að til séu öfl, þar sem leitast er við að hjálpa þeim sem minna mega sín, ásamt því að styrkja önnur góð og þörf málefni. Húsvíkingar hafa átt því láni að fagna um langt árabil að þar starfa öflug félög, klúbbar og samtök á þessu sviði.

Meðal þeirra er Kiwanisklúbburinn Skjálfandi sem fagnaði því á dögunum að 30 ár eru liðin frá stofnun hans. Hátíðarfundur var haldinn á Gamla-Bauk við Húsavíkurhöfn þar sem félagar komu saman ásamt gestum sínumtil kaffisamsætis. Þar stigu menn í ræðustól, félagar minntust stofnunar klúbbsins og áranna 30 sem liðin eru og gestir færðu þeim heillaóskir. Þrír af stofnfélögum klúbbsins voru heiðraðir ásamt Þórði Ásgeirssyn, það voru þeir Brynjar Þór Halldórsson, Sigurgeir Aðalgeirsson og Jón Olgeirsson.

Á fundinn komu tveir leikhópar og fluttu atriði úr verkum sem þeir hafa sett upp í vetur. Þetta voru nemendur 7. bekkjar Borgarhólsskóla með söngatriði úr söngleiknum Ljóta andarunganum og leikklúbbur Framhaldsskólans á Húsavík með atriði úr leikritinu Helgin framundan.

Svo mörg voru þau orð en myndin sem fylgdi þessari frétt er einmitt gamla myndin sem nú birtist.

Kiwanismenn heiðraðir á 30 ára afmæli Skjálfanda.

Stofnfélagarnir sem heiðraðir voru, f.v.Jón Olgeirsson, Sigurgeir Aðalgeirsson, Þórður Ásgeirsson og Brynjar Þór Halldórsson. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í stærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744