Gamla myndin - Helgin framundan

Gamla myndin þessa vikuna var tekin í byrjun febrúarmánaðar 2004 á sýningu leikklúbbs Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus og Þispu.

Gamla myndin - Helgin framundan
Gamla myndin - - Lestrar 608

Elín Ásbjarnardóttir og Ómar Annisius.
Elín Ásbjarnardóttir og Ómar Annisius.

Gamla myndin þessa vikuna var tekin í byrjun febrúarmánaðar 2004 á sýningu leikklúbbs Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus og Þispu.

Þá var sett upp leikritið Helgin fram undan eftir þá Jóhann Kristin Gunnarsson og Kristján Þór Magnússon sem einnig leikstýrðu verkinu.

Morgunblaðið sagði svo frá sýningunni þann 12. febrúar :

Vel sótt sýning um væntingar

Leikklúbbur Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus og Þispa, sýndi á dögunum leikritið Helgin fram undan eftir þá Jóhann Kristin Gunnarsson og Kristján Þór Magnússon sem einnig leikstýrðu verkinu. Hörður Þór Benónýsson samdi texta við þekkt lög sem notuð voru í sýningunni og Guðni Bragason stjórnaði tónlistarflutningi. Erling Þorgrímsson sá um tækni- og ljósamál og þær Heiður Sif Heiðarsdóttir og Kristrún Ýr Óskarsdóttir um förðun og aðra aðstoð. 

Sýningin hlaut mjög góðar viðtökur bæjarbúa og aukasýningar voru nokkrar. Telst mönnum svo til að um 650 manns hafi séð sýninguna, sem þykir harla gott. 

Leikritið gerist á einni helgi í lífi íslenskra unglinga og er efni þess um væntingar þeirra til hennar. Væntinga um glaum og gleði, ást og hamingju en eins og allir vita getur helgin fram undan einnig orðið vettvangur sorgaratburða sem aldrei verða bættir. 

Með helstu hlutverk fóru þau Ómar Annisisus, Baldur Baldvinsson og Elín Ásbjarnardóttir. Óhætt er að segja að leikur þeirra hafi verið með ágætum. Það má reyndar segja um leikhópinn allan sem var skóla sínum til mikils sóma. 

Um tilurð þessa verks segir annar höfunda, Kristján Þór: "Píramus og Þispa, leikklúbbur FSH, fór þess á leit við Jóhann Kristin félaga minn að vinna að einhverju með þeim nú í vetur. Hann hafði svo samband við mig og féllst ég á að koma að þessu eitthvað líka. Við lögðum strax upp með það að gera eitthvað sem tengdist forvörnum vímuefna og réðumst svo í það að skrifa stutt verk sem átti að hafa ákveðinn boðskap. 

Við ræddum mikið um það hvernig best væri að koma skilaboðunum til skila án þess að vera að tyggja einhverjar gamlar lummur ofan í markhópinn það er ungt fólk á aldrinum 13-20 ára. Ákveðið var því að hafa þetta á léttu nótunum, svona á yfirborðinu, en um leið halda alvarlegum og eða dramatískum undirtóni.

Það lá beint við að skrifa eins konar dæmisögu sem leikhúsgestir gætu sem best tengt sjálfa sig við án þess endilega að hafa upplifað nákvæmlega eins hluti. Boðskapurinn er jú sá að það þarf oft ekki að prufa fíkniefni nema einu sinni svo að illa geti farið. Einnig að slíkt getur hent fólk eins og mig og þig og í raun allt ungt fólk," sagði Kristján Þór.

Eiga heiður skilinn

Kristján Þór segir alla þá sem að sýningunni komu vera himinlifandi bæði með aðsókn og hvernig til tókst að koma verkinu á fjalirnar. "Þátttakendur í sýningunni eiga heiður skilinn fyrir mikla og ósérhlífna vinnu enda ber erfiðið ríkulegan ávöxt að okkar mati," segir hann. 

Kristján Þór segir alls óvíst með framhald verksins, það sé í raun ekkert ákveðið. "Við höfum reyndar fengið góð viðbrögð við því og það er því aldrei að vita nema það skjóti upp kollinum í öðrum skólum á næstu mánuðum eða árum. Það er hins vegar of viðamikið fyrir þennan leikhóp að setja þetta upp á öðrum stöðum svo við bíðum og sjáum til hvað gerist varðandi handritið," sagði Kristján Þór að lokum.

Þess má að lokum geta að starfshópur um vímuefnavarnir á Húsavík styrkti Píramus og Þispu vegna uppsetningar á verkinu.

 

Elín Ásbjarnardóttir og Ómar Annisius í hlutverkum Rósu og Danna

Elín Ásbjarnardóttir og Ómar Annisius í hlutverkum Rósu og Danna.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744