Að tala á réttum stöðum

Kæru Þingeyingar. Í umboði ykkar hef ég staðið vaktina á Alþingi undanfarin 4 ár, fyrir þetta samfélag, kjördæmið okkar og landið allt.

Að tala á réttum stöðum
Alþingiskosningar 2017 - - Lestrar 200

Valgerður Gunnarsdóttir.
Valgerður Gunnarsdóttir.

Kæru Þingeyingar. Í umboði ykkar hef ég staðið vaktina á Alþingi undanfarin 4 ár, fyrir þetta samfélag, kjördæmið okkar og landið allt.

Það hefur skipt máli að vera í stjórnarliðinu þennan tíma og það hefur skilað okkur árangri. Að vera hluti af heild, að vera í liðinu sem vinnur saman að úrbótum til farsældar fyrir land og þjóð.  Á það hef ég litið sem mitt hlutverk, fyrst og fremst.  

Ég hef einbeitt mér að því að vinna fyrir okkar samfélag og standa vörð um innviði þess.  Ég hef hvorki miðað mína vinnu við mínútur eða klukkustundir sem ég tala í ræðustólnum í þingsal Alþingis, né hve áberandi ég næ að vera út á við.  Ég vinn og ég tala á réttum stöðum.  Þegar ég segi þetta, á ég við, að ég beiti mér hart í mínum þingflokki, í nefndum Alþingis og við ráðherrana okkar. Ég rökræði málin, fylgi þeim eftir, ýti á, geri athugasemdir og pressa á að mál sem okkur varða nái fram að ganga. Ég hef verið í liðinu sem stjórnar.

Ég hef einarðlega fylgt eftir málum framhaldsskólanna okkar beggja og fyrir mitt tilstilli, sem fjárlaganefndarmanns, var þeim veitt sérstakt viðbótarfjárframlag, sem nam árlega mörgum milljónum króna. Það skipti verulegu máli í þeirra þröngu fjárhagsstöðu.

Ég hef af einurð fylgt eftir því sem nauðsynlegt hefur verið vegna framkvæmdanna á Bakka og Þeistareykjum, hvort sem það hafa verið fjárframlög vegna gangnagerðarinnar eða framkvæmdaleyfi vegna Þeistareykja.

Ég hef fylgt eftir fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og til velferðar- og heilbrigðismála.  

Ég er formaður umhverfis- og samgöngunefndar og hef beitt mér  í umhverfismálum og framkvæmdum í vegamálum, og já, líka fyrir Dettifossvegi, þó enn sé töluvert eftir þar.  

Ég hef unnið að og beitt mér í fjölmörgum málum sem varða kjördæmið allt og einstakar byggðir.  En hér verður ekki farið í frekari upptalningu.  

Ég hef líka barist á móti framgangi mála sem mér og fleirum hefur fundist stefna til hins verra fyrir okkar samfélag.

Kæru Þingeyingar, ég þekki þetta samfélag, ég bý hér, hef gegnt hér ýmsum störfum og hef gert það tvo þriðju hluta minnar ævi.  Það er afar mikilvægt að við Þingeyingar eigum heimamann sem okkar fulltrúa á Alþingi.

Ég vil vera ykkar þingmaður áfram, en geri mér grein fyrir að það er á brattann að sækja og bið því í einlægni um ykkar stuðning á kjördag.  

Valgerður Gunnarsdóttir
alþingismaður


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744