Langanes er ekki ljótur tangi

Föstudaginn 18. júlí kl. 17:00 opnar í Hafliðabúð á Þórshöfn sýning nýrra verka Hildar Ásu Henrýsdóttur.

Langanes er ekki ljótur tangi
Fréttatilkynning - - Lestrar 715

Hildur Ása Henrýsdóttir.
Hildur Ása Henrýsdóttir.

Föstudaginn 18. júlí kl. 17:00 opnar í Hafliðabúð á Þórshöfn sýning nýrra verka Hildar Ásu Henrýsdóttur.

Sýnd verða málverk, teikningar og ljósmyndir er unnin voru við verkefnið Langanes er ekki ljótur tangi síðastliðinn júní. Í tilefni sýningarinnar mun Hildur bjóða gestum að njóta léttra veitinga við opnun.

Hildur er uppalin á Þórshöfn og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, hún lauk námi í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri árið 2012 og stundar nú nám í myndlist við Listaháskóla Íslands.

Langanes er ljótur tangi orti skáldakonan Látra-Björg á átjándu öld og vildi snúa aftur til sveitar sinnar fjarri Langanesi. Hildur mótmælir nýðvísu skáldakonunnar og snéri heim til sveitar sinnar á Langanesi síðast liðinn júní. Hún leitaðist við að fanga menningareinkenni Þórshafnar og nærumhverfis ásamt því að gera náttúrunni í kring hátt undir höfði. Hún vildi sýna fram á að Látra-Björg hefði rangt fyrir sér varðandi Langanes.

Við Finnafjörð

Innblástur að verkefninu er fenginn frá starfi íslenskra málara í byrjun 20. aldar sem komu auga á hið stórfenglega í náttúrunni og höfðu margir hverjir einnig áhuga á iðandi mannlífi og atvinnuvegum í borg og bæ. Innlegg myndlistarinnar, til að mynda landslagsmálverksins þar sem listamaðurinn tjáði ofsafegurð náttúrunnar, höfðaði sterklega til íslendinga á sínum tíma og ýtti undir samkennd með þjóðinni. Á vissan hátt má segja að listamaðurinn hafi átt þátt í að kynna íslendingum fyrir fegurð landsins. Á svipaðan hátt vill Hildur að fanga á tvívíðan flöt þá fegurð sem leynist í umhverfi Þórshafnar og Laanganess.

Verkefnið hlaut menningarstyrk frá sjóðnum Aftur heim sem er samstarfsverkefni Menningarráðs Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Aftur heim er þróunarverkefni sem hefur það að markmiði að efla tengsl við brottflutta unga listamenn úr Þingeyjarsýslum.

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744