Í andlitinu speglast sagan - Bernskuminningar úr ÞingeyjarsýsluFréttatilkynning - - Lestrar 605
Í andlitinu speglast sagan - Bernskuminningar úr Þingeyjarsýslu – er smásagna og ljósmyndaverkefni unnið af Halldóru Kristínu Bjarnadóttur.
Þar ræðir hún við 16 valda einstaklinga, yfir miðjum aldri, um bernsku- og uppvaxtarár þeirra ásamt því að ljósmynda viðmælendurna á heimilum þeirra. Hugmyndin kviknaði veturinn 2013-2014 en áhugi Halldóru hefur alla tíð legið í þessa átt. Fjallað er um æskuna með augum hinna lífsreyndari og myndskreytt með svarthvítum myndum af hverjum viðmælanda. Markmiðið með verkefninu er að kortleggja einkenni nokkurra Þingeyinga, á einlægan hátt. Gleðja sem og vekja fólk til umhugsunar. Lagt var upp með ákveðnar spurningar til þess að ná fram þeim sögum sem óskað var eftir og til þess að ná ákveðinni vídd í frásögnina.
Halldóra hljóðritaði viðtölin og vann texta upp úr þeim en draumurinn er að geta gefið sögurnar og ljósmyndirnar út með einhverjum hætti. Ljósmyndir voru teknar af viðmælendunum á meðan á viðtalinu stóð og leitast við að ná þeim í þeirra eðlilega umhverfi. Uppvaxtarár eru flestum afar persónuleg og því er lögð áhersla á að einlægnin sé rauði þráður verkefnisins. Von Halldóru er að verkefnið hlýi og fylli Þingeyinga vissu stolti. Stoltinu sem þeir fá seint nóg af.
Afrakstur Bernskuminninga úr Þingeyjarsýslu verður nú til sýnis í formi ljósmyndasýningar þar sem sögubrot úr æsku viðmælendanna styðja ljósmyndirnar. Halldóra ákvað að fara alla leið hvað hágæða prentun snertir og verða því ljósmyndirnar til sölu á sýningunni.
Sýningin opnar í Safnahúsinu á Húsavík nk. sunnudag 17. maí á Íslenska safnadaginn.
Viðmælendur Halldóru Kristínar eru Aðalbjörg Jónasdóttir, Aðalgeir Kristjánsson, Arngrímur Geirsson, Gerður Benediktsdóttir, Guðmundur Hallgrímsson, Guðrún Sigurðardóttir, Helga Baldursdóttir, Helgi Héðinsson, Höskuldur Þráinsson, Marinó Ragnarsson, Indriði Ketilsson, Ívar Júlíusson, Kristján Ásgeirsson, Rannveig Benediktsdóttir, Vigfús Bjarni Jónsson og Vilhjálmur Pálsson.
Fésbókarsíða Halldóru Kristínar er https://www.facebook.com/halldorakristinphotography en þar eru myndir sýndar af viðmælendum og valin brot úr viðtölunum spiluð: https://www.facebook.com/halldorakristinphotography/videos
Og á ljósmyndasíðu má skoða myndir hennar: http://snoturt.tumblr.com/
.