Glæsilegur árangur í blakinu

Nú er nýloknu keppnistímabilinu í blaki þennan veturinn og það má með sanni segja að blakstrákarnir í hinu sameiginlega liði Völsungur/Efling hafi haft í

Glæsilegur árangur í blakinu
Íþróttir - - Lestrar 124

Strakarnir fagna sigri.
Strakarnir fagna sigri.

Nú er nýloknu keppnistímabilinu í blaki þennan veturinn og það má með sanni segja að blakstrákarnir í hinu sameiginlega liði Völsungur/Efling hafi haft í nægu að snúast á þessu tímabili.

Ungt lið félagsins tók þátt í Íslandsmótinu í U20 aldursflokknum, í 2. deild (næst efstu) Íslandsmóts karla, bikarmóti í U20 og Kjörísbikarkeppni karla. Heilt yfir spilaði liðið alls 35 leiki í vetur, þar af 17 í Íslandsmóti U20. Samhliða þessu spiluðu fimm leikmenn liðsins einnig í U16 aldursflokknum í vetur í samstafi við KA og tóku þeir því þátt í um 50 leikjum í vetur.  

Skemmst er frá því að segja að árangurinn var með besta móti og bikaraskápurinn í íþróttahöllinni þandist út af verðlaunagripum eftir veturinn.  Veislan byrjaði fyrir alvöru á bikarmóti yngri flokka sem haldið var á Akureyri í febrúar. Þar vann U20 liðið alla sýna leiki, þar á meðal lið Vestra í æsispennandi úrslitaleik sem endaði 15 – 13 í oddahrinu. Þá varð U16 lið KA/Völsungs einnig bikarmeistari. 

Í lok febrúar spilaði liðið við úrvalsdeildarlið Vestra í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Áður hafði liðið slegið út lið Blakfélags Hafnafjarðar í 1. umferð. Leikurinn fór fram í íþróttahöllinni á Húsavík fyrir framan frábæran hóp áhorfenda sem studdu vel við bakið á liðinu í þessum leik eins og öllum hinum heimaleikjum liðsins í vetur. Leikurinn tapaðist en okkar drengir náðu þó að vinna eina hrinu gegn úrvalsdeildarliðinu sem verður að teljast vel að verki staðið. 

Næsta verkefni liðsins var í Neskaupstað þar sem úrslitakeppnin í 2. deild karla fór fram seinnipartinn í mars. Enn og aftur börðust okkar drengir eins og ljón og uppskáru efsta sætið og þar með Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild. Tveir bikarar mættir til Húsavíkur og enn nóg eftir. 

Síðasta rimman var svo úrslitaleikur við HK um Íslandsmeistaratitilinn í U20. Sá leikur var leikinn laugardaginn 14. maí í höllinni á Húsavík. Það var viðeigandi endir á tímabilinu að strákarnir skildu fá tækifæri til að lyfta loks bikar á heimavelli fyrir framan okkar frábæru áhorfendur sem hafa staðið svo vel við bakið á þeim í vetur. Það kom því aldrei neitt annað en sigur til greina í þeim leik enda endaði leikurinn 3 - 0 fyrir okkar drengi og þriðji titillinn tryggður. Helgina eftir fóru síðan fimm af þessum drengjum og náðu í Íslandsmeistaratitilinn í U16 til Ísafjarðar og fullkomnuðu þannig veturinn með öllum titlum sem í boði voru fyrir utan sjálfan Kjörísbikarinn. 

Síðan til að toppa allt saman þá hafa fjórir af okkar drengjum – þeir Aron Bjarki Kristjánsson, Hreinn Kári Ólafsson, Hörður Mar Jónsson og Sigurður Helgi Brynjúlfsson verið boðaðir á landsliðsæfingar núna í júní fyrir næsta verkefni liðsins 14. – 18. júní í Edinborg sem er mót smáþjóða á vegum Evrópska blaksambandsins. Hreint út sagt frábær árangur hjá okkar flottu strákum og tímabil sem seint mun gleymast. 

Ljósmynd Hafþór-640.is

Sameiginlegt lið Völsungs og Eflingar ásamt þjálfurum sínum. Andri Hnikarr Jónsson tv. og Tihomir Paunovski.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744