Friðarlaupið kemur til Húsavíkur í dagFréttatilkynning - - Lestrar 299
Dagana 20.júní - 12. júlí er hlaupið Friðarhlaup um allt Ísland.
Þá mun 16 manna alþjóðlegur hópur hlaupara bera logandi Friðarkyndil á milli byggða til að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði sem hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis.
Mikil áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna, sem er skipulögð í samstarfi við íþrótta- og ungmennahreyfingar á hverjum stað.
Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Hlaupið var stofnað árið 1987 og er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931-2007) sem m.a. opnaði íslenska Friðarhlaupið árið 1989.
Þetta verður í 20. sinn sem hlaupið er á Íslandi. Hlaupið verður í sveitarfélögum um allt land og plantað verður friðartrjám um allt land meðfram hlaupinu.
FRIÐARHLAUPIÐ KEMUR TIL HÚSAVÍKUR LAUGARDAGINN 29. JÚNÍ.
Dagskrá:
kl.12.45 – Hist við pósthúsið í Húsavík
kl.12.50 – Hlaupið af stað að skrúðgarðinum
kl.13.00-13.30 – Friðartré plantað og dagskrá í skrúðgarðinum þar sem m.a. Friðarkyndillinn verður látinn ganga manna á milli.
Fréttatilkynning.