Framsýn - Ályktun um stöðuna í verkalýðshreyfingunni

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt stjórn Framsýnar-ung.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt stjórn Framsýnar-ung.

Meðal þess sem var til umræðu voru deilurnar í verkalýðshreyfingunni sem hafa verið til umræðu í fjölmiðlum eftir þing Alþýðusambands Íslands í síðustu viku.

Eftir góðar umræður þar sem fundarmenn skiptust á skoðunum um stöðuna var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða: 

„Framsýn stéttarfélag harmar þá atburðarás sem átti sér stað á nýyfirstöðnu þingi ASÍ og leiddi til þess að þingfulltrúar VR, Eflingar,Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur gengu á dyr. Það sem gerðist á þinginu var aðeins dropinn sem fyllti mælinn, eftir harðvítugar deilur innan hreyfingarinnar um langan tíma.

Félagið hafnar því alfarið að ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar sé á ábyrgð þeirra stéttarfélaga sem gagnrýnt hafa skort á gagnsæi og lýðræðislegum starfsháttum innan ASÍ og kallað eftir breytingum þar um. Opin og lýðræðisleg umræða um það hvernig verkalýðshreyfingin eigi að starfa og hvert hún skuli stefna hlýtur að vera forsenda þess að fólk geti unnið saman.

 

Framsýn telur afar brýnt nú þegar mikilvæg verkefni eru framundan við gerð kjarasamninga, að deiluaðilar slíðri sverð sín og einbeiti sér að því að komast upp úr þeim hjólförum sem deilan virðist föst í. Þar verða allir sem koma að málum að fá að njóta sannmælis. 

Verkefni verkalýðshreyfingarinnar verða hér eftir sem hingað til að ná farsælum samningum fyrir  launafólk í landinu og slagkraftur hreyfingarinnar felst fyrst og síðast í því að aðildarfélögin geti tekist á um einstök atriði, en hafi þroska til að fylkja liði á bak við niðurstöðuna þegar hún er fengin.“                         


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744