Flug til Húsavíkur er þjóðhagslega hagkvæmt!Aðsent efni - - Lestrar 119
Flugfélagið Ernir hefur í rúman áratug flogið reglulegt áætlunar-flug til og frá Húsavík án þess að þörf hafi verið á því að styrkja flugleiðina sérstaklega með framlögum.
Það hefur því verið félagið og viðskiptavinir þess sem hafa kostað flugið og félagið sjálft tekið þá áhættu sem af því hlýst að reka flugleiðina. Skýrsla sem unnin var fyrir Innanríkisráðu-neytið um félagshagfræðileg greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands á Íslandi sýnir svart á hvítu að flugleiðin milli Húsavíkur og Reykjavíkur er þjóðhagslega hagkvæm. Afleiðingar Covid hafa hins vegar haft áhrif á nýtingu í innanlandsflugi og ljóst er að það tekur tíma að ná henni aftur.
Það er mitt mat að langtímaáhrif þess að flug legðist af til Húsavíkur séu alvarlegar, ekki eingöngu fyrir íbúa í Þingeyjarsýslu heldur einnig alla landsmenn þar sem Flugfélagið Ernir hefur sinnt áríðandi sjúkraflugi með líffæraþega til útlanda. Ef félagið þarf að fækka flugvélum og flugmönnum veikir það getu okkar sem þjóðar að sinna þessu nauðsynlega verkefni.
Við sem þjóð ættum ekki að þurfa að deila um það að við viljum halda landinu okkar í byggð og veita íbúum í dreifðum byggðum lífskjör sem eru sambærileg við það sem þekkist í þéttbýlinu við Faxaflóa.
Fjárfesting samfélagsins í slíku með tímabundnum stuðningi við áframhaldandi flug á þessari flugleið er lítil fjárhæð sé miðað við þann ábata sem af því hlýst til heildarinnar.
Ég vil hvetja þingmenn, ráðherra og sveitarstjórnarfólk að beita sér í málinu og taka til máls og kynna sér upplýsingar og gögn um þetta brýna verkefni, sama á við um íbúa hvar sem er á landinu. Málið er stærra en svo að það hafi bara áhrif í Þingeyjarsýslu!
Friðrik Sigurðsson
Flugrekstrarfræðingur & Þingeyingur!