Barnaheimili á Indlandi styrkt af Ísfell og Gentle Giants á HúsavíkAðsent efni - - Lestrar 355
Í síðustu viku var ég á Indlandi og heimsótti barnaheimili mitt í Kalkútta en þaðan var ég ættleiddur til Íslands fyrir 33 árum ásamt fleiri húsvískum börnum.
Þetta var mín önnur heimsókn þangað og mikil upplifun að heimsækja barnaheimilið og kynnast betur uppruna mínum í Kalkútta. Gaman er að segja frá því að barnaheimilið er staðsett í sama húsnæði og ég var í ásamt því að þrjár af fóstrunum hafa verið þar í nær 35 ár og sáu því um mig fyrstu átta mánuði lífs míns.
Eins og gefur að skilja eru aðstæður bágbornar og allt aðrar en við eigum að venjast hér en starfsfólkið gerir sitt allra besta og sýnir mikla umhyggju í umönnun barnanna. Tvö húsvísk fyrirtæki Ísfell (Icewear) og Gentle Giants-Hvalaferðir ákváðu að styrkja starfsemi barnaheimilisins rausnarlega með alls konar íslenskum fatnaði, leikföngum og öðrum búnaði sem mun koma að góðum notum fyrir börnin. Starfsfólkið og börnin voru hæstánægð með þessar gjafir og er ég mjög þakklátur þessum fyrirtækjum enda mikil tenging við Kalkútta hjá mörgum íslenskum fjölskyldum í nær fjóra áratugi.
Hægt er að styrkja barnaheimilið í Kalkútta (ISRC) gegnum góðgerðarsamtökin Illuminate India en þau framlög renna beint til barnaheimilisins. www.illuminateindia.org
Ættleiðingar frá Indlandi hafa verið í lágmarki síðustu árin en mikill áhugi er hjá forstöðukonu barnaheimilisins að hefja reglulegar ættleiðingar til Íslands og gefa börnum tækifæri á betra lífi hér og fyrir þær fjölskyldur sem þrá að eignast börn og kjósa að ættleiða.
Daníel Chandrachur Annisius