Svo langt yfir pari

Golfklúbbur Húsavíkur er, líkt og önnur íþróttafélög, með samstarfssamning við sveitarfélagið Norðurþing.

Svo langt yfir pari
Aðsent efni - Hafþór Hreiðarsson - Lestrar 375

Golfklúbbur Húsavíkur er, líkt og önnur íþróttafélög, með sam-starfssamning við sveitarfélagið Norðurþing.

Í þeim samningi kemur fram að Norðurþing skal treysta fjárhagslegan rekstrar- og starfsgrundvöll klúbbsins með beinum fjárframlögum og stuðningi við klúbbinn. Framlag sveitarfélagsins hefur staðið nánast óhreyft undanfarin ár. Golfklúbbur Húsavíkur skal hafa það að markmiði, samkvæmt samningnum að bjóða upp á skipulagt félagsstarf þar sem lýðheilsu- og forvarnargildi íþrótta eru höfð að leiðarljósi. Ekki síst sem almenningsíþrótt og halda úti hverskyns félagsstarfi á heilsársgrundvelli. Sérstaklega er kveðið á um barna- og unglingastarf.

Katlavöllur

Golfklúbburinn rekur glæsilegan og eftirsóttan skrúðgarð, Katlavöll. Þar hafa sjálfboðaliðar skilað ómældri vinnu við uppbyggingu. Auk þess að reka eigið húsnæði. Sem er aðeins nothæft hálft árið. Húsnæði klúbbsins eru öll rafmagnskynt sem felur í sér talsverðan kostnað. Þrír til fjórir sumarstarfsmenn starfa á vellinum yfir sumartímann auk vallarstjóra. Klúbburinn býður upp á þjálfun fyrir börn og ungmenni yfir sumartímann. Síðastliðið sumar tóku 35 börn og unglingar þátt í starfi klúbbsins. Klúbburinn hefur sent kylfinga á vinabæjarleika í Álaborg.

Undirritun uppbyggingarsamkomulags og síðan ekkert

Sumarið 2018 gerði golfklúbburinn og Norðurþing með sér samkomulag til tveggja ára um uppbyggingu á nýrri golf- og frístundaaðstöðu við völlinn. Klúbburinn hefur lagt í mikla vinnu við að koma því á en ekkert hefur gerst að hálfu Norðurþings og stefnir ekki í það á árinu 2020. Átti nýtt húsnæði að vera í eigu Norðurþings, að ósk fulltrúa sveitarfélagsins. Þetta var utan við gatnagerð en ekkert bólar á henni. Fyrir ári síðan var fyrirhuguðum framkvæmdum slegið á frest ótímabundið. Sömuleiðis kemur fram í fundargerðum að taka eigi upp samkomulagið en ekkert heyrst frá Norðurþingi. Að mati stjórnar klúbbsins er búið að slá verkefnið út af borðinu. Eftir stendur samkomulagið.

Reyna að tryggja heilsársstarfsemi

Stjórn Golfklúbbs Húsavíkur taldi mikilvægt að bregðast við og reyna eftir fremsta megni að uppfylla skyldur samnings við sveitarfélagið og að halda úti heilsársstarfsemi. Starfsemi klúbbsins liggur því miður í dvala yfir vetrarmánuðina. Klúbburinn brá á það ráð að senda sveitarfélaginu erindi og óska eftir samtali um aðstöðu fyrir starfsemi sína. Klúbburinn á golfhermi sem er vilji til að koma upp þannig að hægt sé að bjóða upp á afþreyingu og íþróttaiðkun árið um kring. Klúbbmeðlimir nýta sér aðstöðu í golfhermi á Akureyri. 

Afgreiðsla Norðurþings þegar óskað er áheyrnar

Áður en erindið var tekið fyrir hjá Norðurþingi kom munnleg fyrirspurn frá tómstunda- og æskulýðsfulltrúa um hvaða húsnæði við höfðum áhuga á. Við höfðum augastað á nokkrum valkostum varðandi vetraraðstöðu, s.s. Verbúð (sem stendur tóm), gamla slökkvistöðin á Höfða (sem er í útleigu út maímánuð) o.fl. Ekki var rætt nánar við stjórn klúbbsins. Erindið var tekið fyrir og svarið var skýrt: Fjölskylduráð sér sér ekki fært um að styrkja GH um leigu á húsnæði fyrir félagsstarf.

Skeytingarleysi gagnvart golfinu

Það er dapurlegt til þess að vita að sveitarfélagið virðist áhugalaust um uppbyggingu golfíþróttarinnar og öllu sem henni tengist á Húsavík. Það er áhugaleysi á barna- og unglingastarfi klúbbsins. Það er áhugaleysi gagnvart þeirri hugmynd að hægt sé að iðka golfið á heilsárs grundvelli. En klúbburinn telur um 150 meðlimi. Klúbburinn mun leika í annarri 

deild í Íslandsmóti golfklúbba í sumar. Einn fárra utan höfuðborgarsvæðisins. Rekstur klúbbsins er umtalsverður og klúbbhús komið á mikið viðhald. Auk þess sem vélageymsla er afar bágborin.

Við væntum þess að sveitarfélagið sýni þá lágmarksvirðingu að veita Golfklúbbi Húsavíkur áheyrn. Það er mikill metnaður fyrir golfíþróttinni og uppbyggingu barna- og unglingastarfs við einn fallegasta golfvöll á Íslandi sem við erum afskaplega stolt af enda einn af þeim seglum sem dregur fólk til Húsavíkur.

Stjórn Golfklúbbs Húsavíkur

Birna Dögg Magnúsdóttir

Gunnlaugur Stefánsson

Hjálmar Bogi Hafliðason

Jón Elvar Steindórsson

Karl Hannes Sigurðsson

Ragnar Emilsson

Sigurjón Sigurðsson  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744