Sumir fara í golf en ég fer í búðina

Rauði krossinn rekur tólf verslanir á landinu og í þeim starfa um 140 sjálfboðaliðar. Þar fast notuð föt og skór fyrir lítið fé en ágóðinn er ein helsta

Sumir fara í golf en ég fer í búðina
Almennt - - Lestrar 448

Guðrún Margrét Einarsdóttir.
Guðrún Margrét Einarsdóttir.

Rauði krossinn rekur tólf verslanir á landinu og í þeim starfa um 140 sjálfboðaliðar. Þar fast notuð föt og skór fyrir lítið fé en ágóðinn er ein helsta fjáröflun Rauða krossins.

Nýjasta búðin er hér á Húsavík og í Hjálpinni, kynningarblaði Rauða krossins sem nýverið kom út, er viðtal við Guðrúnu Margréti Einarsdóttur sérkennara í Borgarhólsskóla og umsjónarkonu Rauða krossbúðarinnar hér í bæ. 

640.is fékk leyfi til að birta viðtalið sem kemur hér:

„Ég tók að mér að halda utan um Rauða krossbúðina vegna þess að mér finnst starf Rauða krossins mikilvægt. Mér finnst ég gefa af sjálfri mér til samfélagsins með því að sinna þessu, þar sem þetta er sjálfboðaliðastarf og þetta er alveg ótrúlega gaman,“ segir Guðrún Margrét Einarsdóttir, sérkennari í Borgarhólsskóla á Húsavík og umsjónarkona nýju Rauða krossbúðarinnar þar í bæ.

Gunna Magga stendur vaktina í Rauða krossbúðinni við Garðarsbraut 44 á þriðjudags- og fimmtudagseftirmiðdögum, ásamt fleiri húsvískum konum sem allar afgreiða í búðinni í sjálfboðavinnu. „Ég sinni búðinni eins og áhugamáli,“ segir hún brosmild. „Sumir fara í golf en ég fer í búðina.“

RKÍ

Rauðakrossbúðin var opnuð í lok apríl og fékk strax góðar viðtökur.

„Á sama tíma komu upp fatagámar hér á Húsavík og eru Húsvíkingar, sem og nærsveitarfólk á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn, með eindæmum duglegir að setja fatnað í gámana. Það er greinilega komið góðæri aftur og viðtökurnar hafa farið fram úr okkar allra björtustu vonum,“ segir Gunna Magga.

Föt sem berast í gámana á Húsavík fara til Reykjavíkur í flokkun þar sem þeim er skipt í þrjá flokka. Það sem er söluhæft fer í verslanir Rauða krossins, annað fer í hjálparstarf og sumt í endurvinnslu.

„Mikilvægast er að æ fleiri vilja endurnýta,“ segir Gunna Magga. „Áður fyrr þekktist slíkt ekki á Íslandi og var ekki einu sinni vel liðið að endurnýta mikið. Nú er löngun til endurvinnslu orðin sýnileg og sérstaklega hjá ungu fólki sem er meira en til í að kaupa notað og endurnýta það sem til fellur. Það er greinilegt að fólk vill gefa hlutunum sínum líf.“

Mikið rennsli hefur verið í gegnum búðina og koma inn heimamenn jafnt sem og ferðalangar frá öllum heimshornum.

„Fyrst kom unga fólkið en nú kemur hingað allur aldur. Margir segjast bara ætla að skoða en labba iðulega út með eitthvað í farteskinu. Ég hef líka tekið eftir því að fólk er farið að nota saumavélina aftur, það kaupir fatnað sem það endurhannar eða saumar upp úr. Þá kom ungt, útlenskt par á bakpokaferðalagi hingað vegna þess að því var kalt á ferðalaginu og keypti sér hlífðarfatnað sem það ætlaði að gefa Rauða krossinum aftur þegar það færi úr landi. Þessi hugsunarháttur er orðinn meira áberandi en áður; að endurnýta fatnað í stað þess að kaupa sér nýjan“ segir Gunna Magga.

Í verslunum Rauða krossins er hægt að finna fágætan varning innan um smávöru og forvitinlegt dót.

„Fólk kemur í búðina, gramsar og leitar, og það er alltaf einhver sem finnur gull. Því það sem er rusl fyrir einum er gull fyrir öðrum. Það er svo með ólíkindum hvað mikið kemur af nýjum, heilum og góðum fötum á alla fjölskylduna, sparikjólum, skóm og jakkafötum. Það er því vel hægt að dressa sig upp og vera draugfínn fyri lítið fé í Rauða krossbúðinni því hér fást fínustu sparikjólar á 2000-kall og sér ekki á þeim,“ upplýsir Gunna Magga.

Allur ágóði Rauða krossbúðanna rennur til Rauða krossins á Íslandi sem ráðstafar honum að hluta til Rauða krossins í Þingeyjarsýslunum og annars hjálparstarfs þar sem hann kemur í góðar þarfir.

„Rauða krossbúðirnar eru forvitnilegar gullkistur og gaman að fara á milli landshluta til að skoða það sem ofan í þeim finnst. Íslendingar eru fjömennir, eins og útlendingar sem sumir hafa fyrir sið á ferðalögum að skoða allar kirkjur á meðan aðrir leita uppi allar „second hand“-búðir á landinu,“ segir Gunna Magga kankvís.

RKÍ

Rauða krossbúðin á Húsavík er opin á þriðjudögum og fimmtudögum frá klukkan 16-18.

„Í skoðun er að opna þrjá daga í viku og fyrir jól ætlum við að vera með jólamarkað vegna þess að margir hafa tekið til hjá sér og komið til okkar með gullfallegt jólaskraut og jólavöru,“ segir Gunna Magga.

Hér má lesa Hjálpina

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744