Stundum þarf að segja JÁ

Það vakti undrun mína þegar ég las framboðsgrein í Skarpi fyrir stuttu, nánar þann 10. maí síðastliðinn, eftir þá kumpána Óla Halldórs og Guðmund Halldórs

Stundum þarf að segja JÁ
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 1056

Stefán Guðmundsson.
Stefán Guðmundsson.

Það vakti undrun mína þegar ég las framboðsgrein í Skarpi fyrir stuttu, nánar þann 10. maí síðastliðinn, eftir þá kumpána Óla Halldórs og Guðmund Halldórs um ímyndaða yfirburði VG í flest öllu sem á daga hafði drifið undanfarin fjögur ár í sveitarfélaginu, og þar með talið öllu sem vék að Flókahúsinu. 

Yfirburðarskrif þeirra má að nokkru leyti til sanns vegar færa; jafnvel þótt þeir hafi einungis tekið við kefli í flestum málum sem þegar var búið að undirbúa rækilega af forverum þeirra og ekki síst þar sem samstarfsflokkurinn var handónýtur síðari hluta kjörtímabilsins og virtist vera strengjabrúða í höndum þeirra félaga frá A-Ö.

Málið um Flókahúsið er mér afar skylt, eðlinu samkvæmt og nauðsynlegt að kveða sannleikann í því máli í stað þess hálf-sannleika sem þeirra félaga var von og vísa.

SAGAN

Fyrst ber að telja að við feðgar höfðum haft þetta hús á leigu í ca.  12 ár og ítrekað reynt viðræður um kaup á húsinu til uppbyggingar og /eða langtímaleigu.  Húsið var löngu komið á niðurrifsáætlun fyrir tíð kumpánanna og þeirri skrítnu niðurrifshugmynd búið að afstýra sömuleiðis löngu fyrir þeirra tíð.  En oft er góð vísa kveðin með stolnum fjöðrum; og margoft af spunameisturum meirihlutans.

Til þess að gera langa sögu stutta; þá verður úr á þessu líðandi kjörtímabili að þeir kumpánar með strengjabrúðurnar í broddi fylkingar og núverandi fyrirfram kosningabandalag Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, komast að því að best sé að auglýsa Flókahúsið opinberlega. Þá hafði formlegri ósk Gentle Giants um mögulegar forgangsviðræður verið hafnað; þrátt fyrir 12 ára leigutíma og fulla vitneskju um mikilvægi þeirrar starfssemi Gentle Giants sem fram færi í húsinu. Flókahúsið og allar eigur Norðurþings skyldi auglýsa til þess að hámarka afrakstur sveitarfélagsins.  Gott og vel.  Viku áður en þessi nýja stefna var tekin af núverandi kosningabandalagi VG & XD þá var áhaldahús bæjarins selt án auglýsingar.  Lóðir veittar án auglýsingar os.frv.  Glæný og góð stefna sem átti að gilda stundum og stundum ekki; en alltaf ef Gentle Giants ætti hlut að máli. Það var kristalklárt. Helstu keppinautar Gentle Giants voru búnir á árum áður að fá nokkrar lóðir við hafnarsvæðið fyrir núll krónur; vera leigufríir með sína miðasölu í 18 ár á þaki verbúðanna í boði skattgreiðenda o.s.frv. Gentle Giants hefur aldrei á sínum 17 árum fengið eina krónu í styrk og ekki einn fermeter frían frá sveitarfélaginu; svo því sé haldið til haga í samkeppnislegu tilliti.

SALAN

Gentle Giants átti hæsta tilboð í Flókahúsið og allt virtist fara á hliðina hjá þeim kumpánum og meirihlutanum.  Tilboðinu var tekið og samþykkt í des. 2016.   Kaupsamningur var þó ekki undirritaður fyrr en nokkrum mánuðum síðar vegna mistaka í deiliskipulagi bæjarins.  Kaupverð að fullu greitt, krónur 37 milljónir við undirritun.  Þungar kvaðir voru lagðar á Gentle Giants í kaupsamningi.  Þakgerðin skyldi breytast með tilheyrandi kostnaði; þrátt fyrir að fyrrum þakgerð hafi staðið fyrir sínu í 55 ár.  Eldvarnarvegg skyldi komið fyrir á milli Flókahúss og nágrannaskúrs á kostnað Gentle Giants o.s.frv.

FRAMKVÆMDIN

Framkvæmdir hófust 1. október 2017 samkv. tímaplani.  Stríðsástand skapaðist fljótlega við nágranna um framkvæmd við eldvarnarvegg.  Skipulagsyfirvöld hlupu í felur í stað þess að tryggja að sú kvöð gæti náð fram að ganga með einum eða öðrum hætti.  Annað stríðsástand skapaðist fljótlega eftir áramót þegar kom að frágangi við þak Flókahúss.  En viti menn; í millitíðinni ákvað meirihlutinn að úthluta nágrannanum 5 ára stöðuleyfi (lengsta stöðuleyfi í sögu Húsavíkur og þvert á lög) í „verðlaun“ í miðju stríðsástandi og fyrir að hafa stöðvað framkvæmdir við Flókahús; þær framkvæmdir sem voru einstaklega þungum kvöðum bundnar í kaupsamningi hússins.  Enn hlupu fulltrúar skipulagsyfirvalda Norðurþings í felur í stað þess að standa í lappirnar og tryggja að þeirra eigin kvaðir á hendur Gentle Giants næðu fram að ganga með eðlilegum hætti.  

FULLTRÚARNIR

Formaður Framkvæmda- og skipulagsnefndar vildi ekki blanda sér í málið; hún gat ekki tryggt framgang verksins, né heldur úthlutað einum meter sunnan við Flókahúsið til þess að hægt væri að verja húsið og þjónusta það til framtíðar; vegna þess að hún taldi að lóðin sunnan við Flókahúsið væri svo verðmæt að það mætti ekki gefa eftir einn meter af henni; þótt um væri að ræða 100 milljóna króna framkvæmd við endurgerð Flókahússins.  Skömmu síðar ákvað hún að úthluta lóð á höfðanum fyrir núll krónur og án auglýsingar fyrir Sjóböðin. Samningur hafði sömuleiðis náðst á svipuðum tíma án auglýsingar um leikfélagsskemmuna við Cape Hotel. Varaformaður Framkvæmda- og skipulagsnefndar var beðinn af undirrituðum að mæta niður á bryggju til þess að sjá hvað fram færi í seinna stríðinu eftir áramót þegar búið var að kalla til lögreglu í tvígang.  Hann sagði orðrétt við beiðninni: “Ja ég veit nú ekki hvort ég á að vera að blanda mér í lögreglumál“.  Undirritaður sagði: “Þú þarft þess ekki, ég vil bara að þú sjáir með eigin augum hverslags óboðlegt ástand er í gangi“.  

Til varaformanns nefndarinnar hefur hvorki sést né spurst síðan, að fjórum mánuðum liðnum; nema þá helst á ferðinni við að smala VG liðum á félagsfund Sjálfstæðisflokksins um daginn.

STAÐAN

Staðan í dag er þessi:  Suðurhlið Flókahússins er ófrágengin.  Verktakar farnir.  Skemmdir yfirvofandi. Afsal fyrir húsinu fæst ekki fyrr en lokaúttekt á fullkláruðu húsi hefur farið fram.  Lán á fasteignina fæst ekki þinglýst vegna þessa. Dómsmál í farvatninu á hendur Norðurþingi. „Snillingarnir“ í núverandi bæjarstjórn hreyfa hvorki legg né lið til þess að framkvæmd suðurhliðar geti klárast; þrátt fyrir að hafa sett og samið kvaðir þess efnis sjálfir. Þeir hlupu í felur....en birtast nú korteri fyrir kosningar með fögur fyrirheit og væntanlega um sambærileg vinnubrögð áfram.  Ég hef margoft sagt þeim kumpánum í VG og strengjabrúðum XD undanfarin fjögur ár að menn hætti á endanum að senda inn erindi í stjórnsýsluna.  Það sé með öllu tilgangslaust.  Hafi menn heppnina  með sér og fái svar á endanum, vikum eða mánuðum síðar; þá sé svarið iðulega NEI.

STEINARNIR

Kæru kjósendur nær og fjær.  Það hefur oft verið strembin glíma við sveitarstjórnir undanfarinna 17 ára í uppbyggingu Gentle Giants en alltaf náðst þolanleg niðurstaða.  Þessi glíma hefur verið algerlega glórulaus með eineltistilburðum undanfarin fjögur ár þar sem allir steinar eru lagðir kerfisbundið í götu okkar sem erum að reyna uppbyggingu með heiðarlegum hætti af lífi og sál.  Reynsla undirritaðs af meirihluta síðustu fjögurra ára er sú að ef ekki finnast steinar til þess að leggja í götu Gentle Giants; þá finna menn loftsteina; slíkur er metnaðurinn og þakklætið fyrir uppbygginguna.

Stefán Guðmundsson – Framkvæmdastjóri Gentle Giants

Þitt atkvæði skiptir máli -  setjum X við E

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744