Skóbúð Húsavíkur: Mikilvægt að hafa gott vöruúrval

Sjötíu og fimm ár eru liðin frá því að Jónas Jónasson, skósmiður á Húsavík, stofnaði Skóbúð Húsavíkur.

Oddfríður Reynisdóttir.
Oddfríður Reynisdóttir.

Sjötíu og fimm ár eru liðin frá því að Jónas Jónasson, skósmiður á Húsavík, stofnaði Skóbúð Húsavíkur.

Árið 1970 tók sonur hans, Reynir, við rekstrinum og árið 2008 eignaðist dóttir Reynis, Oddfríður, verslunina. Í dag sjá Oddfríður og dóttir hennar, Birna Dögg, um reksturinn. Þær eru því þriðji og fjórði ættliður farsælla kaupmanna á Húsavík. „Afi seldi bara skó og vinnufatnað en vöruflokkunum hefur fjölgað með árunum. Nú bjóðum við breiðara úrval af fötum og ýmsa sérvöru,“ segir Oddfríður.

Skóbúð Húsavíkur

Húsavík er miðstöð hvalaskoðunar og nokkur fyrirtæki bjóða upp á siglingu út á Skjálfandaflóa. Oddfríður segir hvalaskoðunina hafa breytt miklu. „Verslunin hefur notið góðs af þessum mikla fjölda ferðamanna sem kemur hingað. Ferðamenn kaupa einkum hlífðarfatnað áður en farið er í hvalaskoðun og þá ekki síst ef veðrið er slæmt. Svo er talsvert um að fólk kaupi gönguskó, ýmist ef skórnir þess hafa gefið sig eða það hefur einfaldlega ekki verið nógu vel skætt fyrir íslenskar aðstæður.“ Oddfríður segir það einkenna erlendu ferðamennina sem koma í búðina að þeir eru þangað komnir af því að þá beinlínis vantar eitthvað. Þeir eru komnir til að eiga viðskipti. Minna sé um að fólk reki inn nefið í bríaríi. „Hins vegar verðum við alls ekki vör við alla þá ferðamenn sem koma í bæinn. Mjög margir koma í skipulögðum ferðum með rútum. Þá er stoppað við bryggjuna og stokkið um borð í hvalaskoðunarbát og svo beint upp í rútu eftir siglinguna og burt úr bænum.“

Skóbúð Húsavíkur

Oddfríður segist ekki hafa aukið vöruúrvalið í Skóbúð Húsavíkur gagngert vegna fjölgunar ferðamanna. Ekki hafi verið teknar inn ákveðnar vörur, sérstaklega hugsaðar fyrir þá. „Hins vegar hefur sú breyting orðið að við gætum þess að eiga alltaf nóg af hlífðarfatnaði, húfum og vettlingum, allan ársins hring. Svoleiðis vörur voru ekki alltaf fáanlegar yfir hásumarið, enda heimamenn þá lítið í slíkum innkaupum. Svo leggjum við okkur fram við hafa þetta á hagstæðu verði því í mörgum tilvikum er þetta nánast einnota þar sem fólk hefur ekki endilega not fyrir hlífðarföt þegar heim er komið.“ Oddfríður hefur ekki viljað bjóða upp á minjagripi eða eitthvað í þeim dúr sem er almennt vinsælt meðal ferðamanna. „Það eru aðrar verslanir í bænum sem sinna því og best að hafa það þannig. Hins vegar er gaman að segja frá því að fjölmargir erlendir ferðamenn komu til okkar í fyrrasumar til að kaupa íslensku fótboltalandsliðstreyjuna.“

Þótt Skóbúðin hafi notið stóraukinnar fjölgunar ferðamanna eru heimamenn eftir sem áður mikilvægustu viðskiptavinir þeirra Oddfríðar og Birnu Daggar. Húsvíkingar og nærsveitungar hafa getað gengið að þjónustunni í 75 ár. „Við eigum marga trygga viðskiptavini sem hafa fylgt okkur í gegnum tíðina og svo má ekki gleyma því að íslenskir ferðamenn koma líka yfir sumarmánuðina.“

Skóbúð Húsavíkur er eina sérhæfða skóbúðin í bænum en þar er íþróttaverslun sem líka selur útivistarfatnað. Oddfríður segir að verslanir hafi komið og farið en samkeppnin sé víða, t.d. á Akureyri og á netinu. „Ég er bjartsýn á framtíðina, enda hefur þetta gengið vel. Netverslun á eflaust eftir að aukast og það mun koma í ljós hvort litlar sérverslanir úti á landi lifi þá samkeppni af. Að mínu mati er helsta áskorunin í rekstrinum að geta, á svo litlu markaðssvæði, boðið upp á sambærilegt vöruúrval og er í hliðstæðum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Fólk hér gerir sífellt meiri kröfur í þá átt og við reynum að verða við þeim.“

Skóbúð Húsavíkur

Reynir Jónasson. Oddfríður Reynisdóttir og Birna Dögg Magnúsdóttir.

Ljósmyndir Hafþór Hreiðarsson.

Viðtalið birtist í nýju tímariti Landsbankans- Verslun og þjónusta, og fékk 640.is góðfúslegt leyfi til að birta það.

 
 

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744