Íslandsmótið í golfi

Íslandsmót golfklúbba fór fram um helgina víða um land. Á Katlavelli á Húsavík var spilað í 3. deild. Mótið er á vegum Golfsambands Íslands. Golfklúbbur

Íslandsmótið í golfi
Íþróttir - - Lestrar 467

Sveit heimamanna
Sveit heimamanna

Íslandsmót golfklúbba fór fram um helgina víða um land. Á Katlavelli á Húsavík var spilað í 3. deild. Mótið er á vegum Golfsambands Íslands. Golfklúbbur Húsavíkur óskaði eftir því að halda mótið en áður fór keppnin fram í ágústmánuði.

Átta sveitir eiga sæti í deildinni og sjö sveitir mættu til leiks. Aðstæður til golfiðkunar voru fínar um helgina og Katlavöllur í eins góðu ástandi og hann getur verið á þessum árstíma. Því ber að halda til haga að tæplega tveir mánuðir eru í þá dagsetningu sem venja er að halda keppnina.

Dómari á mótinu var Tryggvi Jóhannsson frá Akureyri. En sveitirnar komu alla leið frá Ísafirði, Neskaupsstað, Vatnsleysuströndinni, Hveragerði og Hellu sem og Sauðárkróki. Í hverri sveit voru fjórir til sex keppendur auk fylgdarfólks. Almennt voru keppendur ánægðir með mótið, margir kylfingar höfðu ekki spilað völlinn áður og þótti nokkrum hann nokkuð snúinn. Til gamans þá ákvað sveitin frá Ísafirði að versla keppnisfatnað sinn að hluta í Skóbúð Húsavíkur og ljóst að hróður hennar fer víða.

Sveitin frá Golfklúbbi Neskaupsstaðar og Golfklúbbi Ísafjarðar öttu kappi um fyrsta sætið og fóru Austanmenn með sigur af hólmi. Sveit heimamanna í Golfklúbbi Húsavíkur barðist um þriðja sætið við sveitina frá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar og höfðu heimamenn sigur í bráðabana á 3. braut eftir spennandi leik.

Efri röð frá vinstri: Jón Elvar, Örvar, Sigurður, Agnar Daði og Magnús liðsstjóri.

Neðri röð frá vinstri: Benedikt Þór, Arnar Vilberg og Karl Hannes.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744